Ég vil ganga minn veg, þú átt að ganga minn veg…

Að vissu leyti er þessi færsla framhald af síðustu því það er einn regin munur í viðbót á okkur gamla gaur. Kannski ætti gamli gaur að skrifast með stóru? Gamli Gaur. Hann kemur allavega þegar ég kalla.

Þegar ég fer út með Vask, hef ég ekki grænan grun um hvert ég ætla að fara. Þegar ég kem útúr innkeyrslunni tek ég hreina skyndiákvörðun… hægri eða vinstri. Og svona eru göngutúrarnir okkar… skyndiákvarðanir á hverju götuhorni. Enda sjaldnast farin sama leiðin.

Gamli Gaur afturá móti fer til vinstri þegar hann kemur útúr innkeyrslunni. Síðan til hægri á Ringgade. Aftur til hægri á Söndre Landevej, heldur áfram á *Hilmar Finsensgade og svo til hægri á Kongevej. Þaðan áfram þangað til komið er að Möllegade og þá beygir hann enneinu sinni til hægri og kemst klakklaust heim. Ég spurði hann einu sinni hvort Vaski fyndist þetta ekki leiðinleg leið? „Nei, honum finnst þetta mjög skemmtileg leið…“

(*Søren Hilmar Steindór Finsen (24. janúar 1824 – 15. janúar 1886), sem gekk oftast undir nafninu Hilmar Finsen á Íslandi, var dansk-íslenskur stjórnmálamaður sem gegndi margvíslegum embættum á vegum danska ríkisins á embættisferli sínum. Árið 1850 var hann skipaður borgarstjóri Sønderborg, þeirri stöðu gegndi hann í fjórtan ár til 2. júlí 1864 en þá hertóku Prússar hana í síðara Slésvíkurstríðinu. Hilmar var stiftamtmaður á Íslandi og fulltrúi konungs á Alþingi á árunum 1865-73, fyrsti landshöfðingi Íslands 1873-82, borgarstjóri Kaupmannahafnar 1883-84 og innanríkisráðherra Danmerkur í rétt tæplega ár, 1884-85… þar hafiði það!).

Í dag fórum við saman í göngutúr, öll þrjú.

IMG_5277

Ég sönglaði eftirfarandi lag sem Einar áttavilti gerði frægt á árum áður, nema hvað ég klippti aðeins úr textanum.

Þú vilt ganga þinn veg
og ég vil ganga minn veg

… og þá göngum við minn veg!

Þú vilt gera hinsegin
og ég vil gera svona

… ég ræð því ég er kona!

Þú ert lengst til hægri
og ég er lengst til vinstri

Þú ert á leið niðrúr
ég er á leið uppúr

… ekki vera súr!

ég vil fara nýja leið
en þú vilt gamlar götur

… þá förum við mína leið!

IMG_5292

Afþví að ég valdi leið eftir veðri þá blasti við okkur þessi fallegi sólarniðurgangur.

IMG_5303

Í dag var hitastigið þunn peysa. Margir voru á stuttbuxum í miðbænum og flestir með sólgleraugu. Fúsi minn vildi ekki fara í sumarjakkanum því hann segist ekki vera gerður fyrir svona heimsskautaveður…? Það endar með að ég sé á eftir honum með sitt hafurtask til eyðimerkurinnar í Oman.

IMG_5327

Vaskur fílaði sig í sólinni og hvíslaði að mér að honum þætti mikið skemmtilegra í óvissugöngutúrunum okkar heldur en í hægrihringnum hans Fúsa. Þar væri ekkert nýtt að nusa af og allir staurarnir lyktuðu af hans eigins pissi.

IMG_5323

Ég er alin upp upp á miðju landi, langt frá sjó. Samt elska ég vatn! Sæki endalaust í það í minni útiveru. Kannski af því að ég er alin upp stutt frá mörgum skurðum sem fylltust í vorleysingunum.

IMG_5328

„Hin“ Frank Gehry byggingin í Sönderborg skartar sínu fegursta í kvöldsólinni. Þetta er bara skrifstofuhúsnæði og ef að ég væri skrifstófubrók (meira en einu sinni í mánuði), myndi ég vilja hafa skrifstofu á efstu hæð í þessu húsi. Með útsýni til suðvesturs. Og með einkaritara (olíuborin), sem kæmi með nýlagað kaffi handa mér þegar ég hringdi bjöllu. Þegar hann kæmi, myndi ég afhenda honum bunka af pappírunum og segja honum að gera e-ð við hann, snúa mér svo aftur við í leðurskrifstofustólnum og halda áfram að stara útum gluggann.

IMG_5331

Liðsforingjaskólinn er í bakgrunninum. Finnst flott þegar nýju og gömlu er blandað saman eins og þeir eru að gera með Frank Gehry verkefninu. Gamli gaur er mitt á milli. Og þó… líklega nær Gehry þar sem Liðsforingjaskólinn var vígður 1907.

IMG_5313

Mig hefur alltaf dreymt um að vera lappalöng -hef í mörg ár óskað mér leggi uppundir axlir. Góði Guð, þetta er eitt af því fáa sem ég bið um! Fyrir utan frið og réttlæti.

Annars hefur einhvern tímann verið sporvagnaspor þarna útfrá, frá höfninni og inn í bæ.

IMG_5335

Ég hef margsinnis sagt það og skrifað en get skrifað það enn einu sinni. Ég bý í fallegasta bæ danaveldis, það þarf ekki að ræðaða.

IMG_5336

Hvíta húsið til vinstri er að ég held, húsið sem var sniðið eftir gömlu járnbrautarteinunum. Langar svo að sjá hvernig sófinn snýr.

Á leiðinni heim, kom ég við í Kaupfélaginu og þeir gaurar fóru heim. Ég hitti uppáhalds grannann (þennan Guðstengda) og ég gladdist með honum vegna væntanlegra tvíbura. Hann fræddi mig um tvíburameðgönguferlið og komandi fæðingu í ágúst. Einnig sagði hann mér að læknirinn hefði sagt að leghálsinn hennar Ástríðar væri mjög fínn og passlega langur…?!? Afhverju fæ ég að vita svona? Ég verð að segja ykkur satt… ég er nokkuð viss um að ég hafi ekki haldið andlitinu þarna innan um kjötið í Fötex. Og það fór ekki fram hjá honum. Hann kvaddi skyndilega: „jæja, blessuð, nei blessaður, nei blessuð…BLESS“ (Hann kann þetta í íslensku en man ekki kynið).

Reyndar er ég með meira á hann sem Gamli Gaur harðbannaði mér að nefna því hann vill meina að það jaðri við Guðlast. Þegar granninn okkar sagði Fúsa frá tvíbbunum, þá spurði Fúsi hann hver pabbinn væri? Granninn sagði bara: „hvabehar???“ Fúsi: „nú, þú eða Guð?“

6170449_orig

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *