Listin…

Fyrst ég var að minnast á ljóðabækur í síðustu færslu og að ég væri að lesa þær þá verð ég að segja ykkur afhverju. Ég er nefnilega að „læra heima“. Ég er að æfa mig í að lesa ljóð. Ég hef ekki lesið mikið af ljóðum um ævina… fyrir utan þegar kennarar Grunnskólans á Eiðum þvinguðu mig til að læra ljóð utan að, já og greina þau. Síðan hef ég rétt aðeins gluggað í stórskáld eins og Þorstein á Ásgeirsstöðum og Svein Snorra. Jú og Dan Turell árið 2008, því ég ákvað að verða betri þjóðfélagsþegn og vildi skilja samfélagið betur. Þetta var liður í aðlöguninni að DK. Það hjálpaði heilmikið.

Ég get ekki kallast mikil listakona… flóknasta ljóð sem ég hef skrifað var á þessa leið:

Ég ætla í bað,

með gamalt blað

og gamlan böll,

um víðan völl.

Eftir þetta ljóð hætti ég öllum skáldskap.

Ég er heldur engin handavinnukona… hef prjónað sömu ermina í ca 3 ár eða síðan Magga Teits flutti til Íslands. Ég hef einu sinni saumað mér topp og gleymdi að gera ráð fyrir gati fyrir hausinn. Og það eftir að hafa hlegið mikið að vinnufélögu minni á hótelinu, henni Bryndísi sem saumaði sinn topp fyrst og gleymdi að gera ráð fyrir götum fyrir hendur. Þetta voru rauðir, einhverskonar flístoppar, brilliant hugmynd Bryndísar en við hvor annarri ósaumakonulegar.

Einu sinni, á blönku námsárunum vantaði mig e-ð á vegginn í stofunni en tímdi ekki að kaupa e-ð ódýrt (og ljótt) útí Bilka. Vinir okkar voru að gera upp hús og áttu því endalaust af efni. Ég fékk stóra plötu og glasvæv (glerbrotaveggfóður) hjá Stínu og Palla og fór síðan í Bilka og bað um prufumálningu -10kr dósin, án alls glans. Þetta var árið 2004.

IMG_4508

Í ár á „listaverkið“ mitt 10 ára afmæli. Verkið getur þýtt margt, alveg eftir því hvernig það snýr. Á myndinni er það klemmdur putti á vini mínum. Ef ég sný því við, verður það of dónalegt til að útskýra. Liggjandi er það hestur að borða heybagga, nýkomin inn um dyrnar á hesthúsinu. Liggjandi á hinni hliðinni er það einnig of dónó til að útskýra. Reyndar sagði einn ónefndur, en jafnframt sá eini hreinskilni gagnrýnandinn að þetta væri forljótt þegar hann sá það hangandi í hestastöðunni. Bóas frændi hefur reyndar heilmikið vit á list því hann er af listamannsættum og því tók ég mikið mark á honum þarna fyrir 10 árum. Ég tók það samt ekki niður og hefur þetta bjákn bara flust á milli herbergja… held að öll fjölskyldan elski það innst inni. Seinna málaði ég flotta mynd af manneskju en eyðilagði hana með að hafa nýrun með á myndinni. Þetta kallast að lifa sig einum of mikið inní aðstæðurnar í kringum sig.

Ég leiraði reyndar. Það tókst vel! Það var fyrir 16 árum ca. Þá datt vinkonu minni í hug að hafa parakvöld með tröllaleir. Sigfús sagði að þetta væri ekkert fyrir hann og drakk hann bara sitt kaffi útá svölum á meðan Sigrún, Jói og ég leiruðum. Ég leiraði hest…ekki bara einhvern hest. Ég leiraði nákvæma eftirlíkingu af Hómer mínum.

Homer

Hómer frá Steðja var stórmerkilegur hestur, fæddur á hippatímabilinu, frekar ófríður og ílla byggður, en ólíkt hippunum, var hann snöggur eins og elding. Enda var hann einn af snöggustu skeiðurum landsins. Hómer var valdur af íllamörðum mjöðmum þegar ég var ca. 12 ára. Hann misskildi sjálfan sig, hann hélt að hann væri enn með pung, henti mér af baki og hljóp í merarnar. Ári seinna datt ég af honum og handleggsbraut mig ílla. Í hvert skipti sem ég virði örin fyrir mér hugsa ég hlýtt til hans. Ári seinna fórum við aðeins of greitt yfir móann og stuttfættur eins og Hómer var, lá hann skyndilega kylliflatur oná mér. Ég komst ekki aftur á bak og skakklappaðist heim (engin sími í vasanum þá) og gekk um eins og stekkjastaur… tognuð á báðum lærum í marga daga á eftir. En ég dýrkaði þennan hest. Þessvegna, til að heiðra minningu Hómers, leiraði ég hann.

Annars get ég ekki státað af miklum listamannshæfileikum en hef þrátt fyrir það fengið æði stórt verkefni sem tengist listinni eins og naflastrengur. Ég er að bíða eftir að póstkonan komi með ljóðabók til mín, sem ég var beðin um að gagnrýna. Ég hlakka óheyrilega til… en líður samt eins og ég sé að fara í próf. Hvernig á ég að geta gagnrýnt list annarra??? Þegar mitt mesta listaverk er Hómer frá Steðja

Trackbacks & Pings

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *