Dagurinn hræðilegi!

Þessi dagur… ég segi ykkur það satt -þessi dagur er sá versti sem af er þessarar viku! Undanfari hans byrjaði eiginlega í gær. Við Svala komum við í bakaríinu niður í bæ til að kaupa rúgbrauð. Við rákum augun í allskonar fleira gúmmelaði og þ.á.m. gróf pítubrauð og annarskonar stykki -10 fyrir X upphæð. Við blönduðum og ég valdi mér „lapper“ sem er ekki bolla og ekki rúnstykki, heldur bara stykki. Aflangt, gróft og girnilegt. Ég ætlaði að borða það í morgunmat. Alveg frá því ég kom heim úr bænum um 17 leytið í gær, hugsaði ég reglulega um þetta stykki og þegar ég fór að sofa, var stykkið það síðasta sem ég hugsaði um áður en ég sofnaði. Ég svaf út og fór á fætur kl. 8.35 -á sama tíma og innistöðusms-ið frá bankanum kom. Ég hentist í sturtu, burstaði tennurnar og hljóp upp á meðan ég klæddi mig í buxurnar. Reif upp skápinn og greip í… TÓMT! Ekkert stykki! Andardrátturinn fór úr jafnvægi og ég tók tröppurnar upp á efstu hæðina í 2 skrefum. Reif upp hurðina á herberginu hennar Svölu og spurði hvar stykkið væri??? Hún leit sljóum augum á mig, yppti öxlum og sagði mér að spyrja pabba sinn.

Ég skrifaði Sigfúsi með det samme! Og jú, hann hafði tekið það með sér í nesti…! Hann sem tekur aldrei neitt spennandi með sér í nesti! Ég, skiljanlega varð alveg óð… fannst góður biti vera fara ofan í rangan kjaft, sérstaklega þar sem Sigfús er einstaklega hugmyndasnauður í sambandi við mat án uppskriftar. Hann hafði örugglega bara sett kæfu á stykkið!

2014-02-12 10.41.47

 

Hann sagði mér seinna að hann hefði ekki sett kæfu á það, heldur pesto, ost og gúrku… kjaftæði… það passar ekki saman. Hann hefur bara verið að hylma yfir með kæfunni.

Og þetta var bara byrjunin… ég fyllti vatnskálina hans Vasks, tók boltann hans og lét hann skoppa og auðvitað skoppaði þessi stóri gúmmibolti beint oní vatnsskálina.

Ég tók símann og opnaði mailinn minn og sá þá mér til skelfingar að ég hafði misst af mögulegri vinnuferð um helgina til Noregs. Bara afþví að ég gleymdi að opna mailinn í sólarhring. Hefði verið svo til í að fara á gjörgæslu í Stavanger.

Um hádegið hafði Svala fengið nóg af tiltekt og enn með of stóran skammt af súrefni í blóðinu frá deginum áður þar sem hún hafði komið með mér í skógarferð af fúsum og frjálsum vilja, svo hún þurfti virkilega að slappa af!

2014-02-11 11.32.27

2014-02-11 11.36.16

Hún hálfþvingaði mig til að horfa með sér á mynd… um miðjan dag. Það var kveikt á netflixinu en í miðri uppkveikingu ákvað hún að við ættum að horfa á þætti. Ég hef einu sinni gert tilraun til að horfa á þætti. (Þá erum við ekki að tala um sunnudagsþætti, eins og Örninn, Landann og Forbrydelsen heldur þáttaseríu á netinu). Í byrjun janúar ákvað ég að fara að horfa á þætti. Einn föstudaginn eftir erfiða vinnuviku, kveikti ég á netflix, setti það fyrsta sem ég sá á, en það var „New black in the orange“ eða hvað sem þetta nú hét. Ég horfði á 3 þætti, svaf ca. 70% af þáttunum og mundi ekkert hvað þessi séðu 30% fjölluðu um. Eftir þetta horfði ég ekki aftur en húsbóndinn gerði látlaust grín að mér… „ætlarðu að horfa á þætti í kvöld?“, „horfðirðu á þætti í dag?“, „hvaða þætti ertu að horfa á núna?“, „hvaða þáttum mælirðu með?“, „þættir, þættir þættir, þáttum…“. Það sem ég skil ekki, er hvenær fólk horfir á þætti, og hvernig það stillir þáttahorf af í hjónabandinu…?

Allavega, Svala sagði að við ættum að horfa á „The office“. Ég blandaði mér í glas.. lífrænan hvítblómasafa, setti á stofuborðið og fór svo að sækja mér ananas. Kom til baka með ananasinn, rak mig í lífræna hvítblómasafann sem helltist yfir ljóðabækurnar sem ég er að lesa og í fátinu hallaði ég skálinni með brytjaða ananasnum svo mikið að helmingurinn af honum fór undir sófa. Tók enga mynd, því „undir sófa“ er ekki birtingarhæft!!!

Við horfðum svo á 3 þætti af „The office“, ég svaf 70% og man ekki 30%.

Dreif mig síðan út í sólina með Vask.

IMG_4447

Varð hugsað til Aldísar í Indlandi þar sem hún sólar sig lon og don á milli þess að djamma. Er farin að sakna að heyra í henni en sætti mig hljóðlaust við að meðaltali 2 skrifaðar setningar annanhvern dag.  Netsambandið er lélegt og skype-ið er því ofviða. Veit hún er að fíla sig frá tám og upp úr og eldaði einkakokkur heimilisins alvöru indverskan mat handa þeim í gær, borin fram á bananatrésblaði.

1798301_10203008527591423_1836921608_nÞessi annars hræðilegi dagur skánaði í göngutúrnum og skyndilega mundi ég að Fúsi á afmæli á næstu dögum. Hann bað mig um að láta óskalistann hér á bloggið.

  • Gjafabréf í Matas (snyrtivöruverslun)
  • Gjafabréf í andlitshreinsun og nudd á snyrtistofu
  • Gjafabréf í hjólabúð
  • Gjafabréf í myndavélabúð
  • Gjafabréf í wellness
  • Gjafabréf í Femina
  • Gjafabréf í Ikea
  • Gjafabréf á hárgreiðslustofu (minnst 1500dkk)

Ef hann fær e-ð af þessu, þá verður hann glaður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *