Ljósmyndaklúbburinn og myndavél vs sími.
Á íslenska jólaballinu í Sönderborg (já við Sigfús minn mættum, barnlaus!) fæddist sú hugmynd að stofna ljósmyndaklúbb… Uppgötvuðum að það er slatti kvenna sem eiga fínar myndavélar, en erum margar svoddan viðvaðningar og langar til að geta meira.
Við stofnuðum klúbbinn, ákváðum 2 þema fyrir janúar og hittumst síðan í byrjun febrúar til að sýna sitt og sjá annarra. Við settumst eftirvæntingafullar niður og í engri samkeppni. Alls engri… margítrekað! Þetta er ekki keppni!!! En yeah right… þegar hópur kvenna kemur saman, þá ER keppni. ALtaF! Í öLLu! En bara í hljóði.
Allavega, þegar kemur að myndatöku þá eru til margar reglur og óreglur… mörg ráð, margt sem hægt er að gera rétt og rangt. Þetta stendur allt í bókunum og á netinu. En ég er eins og ég hef margoft sagt… með alltof mikið af testosteroni í mér… týpískur karlmaður… geri hlutina og les „kannski“ leiðbeiningar seinna… Svo mér er óskaplega ótamt að kynna mér málin. Geri bara hlutina, full af óþreyju og óþolinmæði… á geysilegum hraða.
Þessi mynd er gott dæmi… veðrið var ískalt… líklega vindkæling om -20 stiga frost og ég bara tók mynd… en vissi ekki af hverju. En hef langað til að vita það síðan… kom ekki einu sinni við þetta appelsínugula. Búin að labba tvisvar framhjá síðan og í æðubunugangnum, gleymi að tjekka á þessu. Ég fæ alltaf svo íllt í bakið ef ég labba hægt (samt engin bakveiki í gangi).
Aftur að kvöldinu, alltíeinu varð maður pínu feimin… afþví að það er svo auðvelt gera vitleysur og maður veit að maður gerir þær. það er svo auðvelt að gagnrýna myndir. Það er öðruvísi með bloggið… Þar er ég ekki feimin. þar gilda í rauninni bara mínar eigin reglur, sem eru
- að vera ekki klámfengin
- að særa fólk sem minnst.
Veit að fólk er ekki alltaf sammála mér og veit að ég get móðgað fólk… en það er ekki það sama og særa. T.d. gerði ég færslu árið 2011 (smellið hér) sem hefur eflaust móðgað einhverja… En ég hef svo innilega rétt fyrir mér… ennþann dag í dag. Ekki hafið þið áhuga á gubbustatus frá mér… vell? En samt svoldin áhuga…? Maður vill í alvörunni ekki missa af neinu!
T.d. á sunnudegi eftir dagvakt: „Kom heim úr vinnunni í dag og fann þá hvolpaælu á svefnherbergisgólfinu… gula… á stærð við stóra karrykjötbollu sem búið var að keyra í gegnum blandara…svona þykka og afmarkaða… en algjörlega lyktarlausa. Búin að skúra allt húsið og fara með hvolpinn á dýralæknisvaktina. Dýralæknirinn sagði að þetta væri bara tilfallandi og að hann væri alheilbrigður… litla skinnið. En það fóru 2000dkk útaf kortinu í þessari heimsókn… fuck dýralækna og þeirra ömurlega háu laun. Fuck ríkisstjórnina og töskurnar hennar Helle… þær eru kellingarlegar!!!“
Bloggið er oftast uppspretta frá ykkur, t.d. e-ð sem einhver segir eða gerir, e-ð sem einhver deilir, e-ð sem gerist í vinnunni eða utan vinnutíma. Þessvegna snertir það kannski einhvern á einhvern hátt annaðslagið.
Nei, það er erfitt að gagnrýna bloggið mitt, því það er reglulaust að mestu og mitt eigið. Eina sem þið getið er að líka það eða ekki.
En þessar myndir… það er annað mál. Þar gilda vissar reglur ef fólki á að líka þær. Ég man þegar ég réði fagljósmyndara í fyrsta skiptið… ég varð fyrir svo miklum vonbriðgum… mér fannst ég borga svo mikin pening fyrir undirhökur, McDonaldshár og ílla grett andlit. Þarna stóðum við í hóp, ísköld, með magann og mjaðmir út og brjóstin suður með nafla. Öll mjööög reið.
Seinna gerði ég aðra tilraun… réði annan ljósmyndara. Sá mætti með aðstoðarmanneskju með sér til að bera allt þetta proffadót. Ég var alveg bara… „öhhh hvað ætlar hann að gera við allt þetta drasl??? og þar á meðal álpappírsspjald…why???“ Hann tók myndir inn í 3 mismunandi byggingum og útí í allskonar veðri því þennan dag, var sól, rigning, rok og logn. Ég nánast táraðist þegar ég skoðaði myndirnar hans af okkur.
Þetta er líklega flottasta mynd af fermingi sem ég hef séð. Aldís átti hugmyndina… „hey, hvað með að nota símaklefann?“ Patricio: „hey já, góð hugmynd!“ Og ég hugsaði: „Jesús, á að kála manni úr kulda…?“
En þarna var hugmyndaríkur fagmaður á ferð með græjurnar í lagi… ég borgaði glöð í bragði fyrir allar myndirnar og alla þjónustuna í kringum þær.
Mér er strax farið að langa í aukahluti á myndavélina mína. Gera e-ð aðeins meira en bara æða áfram í blindi án þess að lesa leiðbeiningarnar. Myndavélin mín getur svo margt meira en síminn minn. Svona svipað og hjól og bíll. Myndi aldrei skutla Aldísi til Hamburg á hjólinu. En hjólið er fint til minniháttar ferðalaga. Ég er svo heppin að myndavélin í símanum er góð til síns brúks. Og er hann alltaf til taks. Þótt þetta séu símamyndir, þá er hægt að nota þær í ýmislegt sem ég sjálf hef gaman af.
Síminn ræður fínt við vitleysismyndir á fb, tækifærismyndir á instagram og hér og nú upplifanir sem hægt er að brosa að eða ilja manni um hjartaræturnar. Ég fer t.d. aldrei með myndavélina í vinnuna en síminn er alltaf með. Og ef ég á erindi hærra upp í húsið fer ég oft útá svalirnar þar og tjékka á útsýninu.
Liðsforingjaskólinn á sérstakt pláss í hjörtum sönderborgara og sérstaklega núna, þar sem á að leggja hann niður.
Frá efri hæðum sjúkrahússins sést allt það helsta í Sönderborg. Sundið, slottið, Alsion, liðsforingjaskólinn, brýrnar, Maríukirkjan, Dybbölmylla, Dybbölhæðirnar, hinar ýsmu merku byggingar og fallegu hús. Þessi mynd er tekin rétt um kl. 16, þegar farið var að skyggja.
Síminn fínn til síns brúks og myndavélin betri til meira brúks.
Þegar ég rölti um í ófærunum í skóginum geng ég um eins og gamall karl með bumbu… eða kasólétt kona…
Ég er svo smeyk við að detta á bumbuna og að myndavélin verði á milli og allt (vélin og bumban) fari á kaf í drullu og brotin skóg. Þá er betra að detta afturfyrirsig!
Því skógurinn er allur á tjá og tundri og víðast hvar íllfært þegar leiðin liggur útaf stígunum. Stuttu eftir að þessi mynd var tekin, var næstum komið myrkur. Rétt rataði í bílinn aftur!
Svona mynd, myndi ekki leynast í farteskinu nema afþví að síminn er alltaf til taks… yndisleg stund með Helgu nöfnu minni inná klósettti á þorrablótinu. Ég gæti aldrei farið með stærðarinnar myndavél á þorrablót… við myndum detta í sameiningu… ég og vélin!
En enn og aftur að ljósmyndaklúbbskvöldinu okkar. Við gagnrýndum helling… en bara jákvætt 🙂 Við erum svo indælar… líklega alltof indælar hvor við aðra. Viljum ekki hárreyta né vera hárreyttar af vinkonunum. Við erum svo viðkvæmar sálir. Og þurfum að æfa okkur í að hrauna yfir hvor aðra. 😉 Hlakka óstjórnlega til að takast á við nýju þemun 2 og næsta kvölds!
Komið sæl .
Ég óska að kaupa bók sem útskirir ISO Apeture og stutter speed a islensku.
Vinkona min for a Kurs a islandi og fékk bók sem útskirir hvernig mindarvelin virkar.
Kænsku geturðu hjálpað mer please.
Ég kem ekki til Ísland svo ég get ekki kaupt svona bók .
Hef reint að finna svona bók a internetinu .
En finn ekkert.
Ef þu getur hjálpað mer .
Kveðja Jensina Gigja
Sæl Jensina Gigja
Því miður veit ég sáralítið um svona, svo að það er lítil hjálp í mér.
Kveðja Dagný