Suðurborg á sunnudegi

Vaskur þurfti nauðsynlega að pissa fyrir kl 8 í morgun, eða ég notaði það sem afsökun til að fara á fætur og borða. Er síhugsandi um mat og lifi í stöðugum ótta um að ég fái ekki að borða um leið og ég finn til örlítillar svengdar. Hungursneyð væri það allra versta sem gæti komið fyrir mitt samfélag. Og hjarta mitt blæðir þegar ég hugsa til fólks sem lifir við daglegt hungur.

Allavega, þegar ég var orðin úttroðin byrjaði sólin að skína og við Vaskur litum hvort á annað og hugsuðum… ÚT!

Kl. 08.50 var ca -7 stiga frost og 15 m/sek. Ég klæddi mig vel. Ef það er e-ð sem ég er góð í, þá er það að klæða mig eftir aðstæðum! Ætti að fá viðurkenningu fyrir það og ég myndi hengja hana upp á vegg.

IMG_3709

Ég fer ekki ofan af þeirri sannfæringu minni um að ég búi á besta stað í bænum. Með almenningsgarðinn hinu megin við götuna, tjörnina og tónleikasvæðið í bakgarðinum, miðbæinn steinsnar til hægri og höfnina þar fyrir neðan.

IMG_3713

Að ganga niður á gömlu brú tekur venjulega ca. 10 mínútur. Við tefjumst alltaf í okkar göngutúrum og því tekur allt tvöfaldan tíma. Ég er ekki frá því að á brúnni hafi kælingin verið um -26 gráður. Ég hélt að lungun í mér myndu frjósa.

IMG_3718

Ef myndin er stækkuð, sést hvernig trillukarlarnir geyma appelsínugulu vinnuvettlingana sína. Gæti ímyndað mér að þeir séu frekar kaldir í dag. Í bakgrunni er háskólinn Alsion og fyrir framan hann er listaverk eftir hinn heimsfræga Ólaf Eliasson.

IMG_3737

Landkrabbinn ég hef ekki hugmynd um í hvað trillukarlarnir nota þessa rauðu fána…

IMG_3744Til hægri á myndinni er liðsforingaskólinn sem um þessar mundir er verið að loka. Á bakvið hann er sjúkrahúsið. Gjörgæslan er neðarlega í fremsta turninum og því með takmarkað útsýni yfir annars þennan fallega bæ.

IMG_3756Hvað veiðir maður í svona bát? Síli?

IMG_3769

Göngutúr sem venjulega tæki tæplega 30 mínútur, tók 90 mín. Eini líkamshlutinn sem varð kaldur á tímabili voru puttarnir á hægri. Jesús Pétur Maríu og Guðsson… mér fannst neglurnar vera að detta af!

IMG_3785

Þegar ég kom heim, var ég aftur orðin sársvöng. Ég fékk mér lakkrísskyr með möndlum og einhverjum fræjum. Elska það. Það er runnið skyræði á gjörgæsluna nema hvað vinnufélagarnir segja „skujaaa“. Og ég segi: „nei, SKYR“. Þeir: „ja skujaaa???“ Ég:“nei SKYRRR… for fanden i helvede mand“. Íslensk vara, íslenskt nafn… þetta kemur… hef fulla trú á þeim.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *