ÁFRAM Ísland
Eftir nokkrar mínútur byrjar leikurinn…
En fyrst ætla ég að hita upp með gullkorni kvöldsins. Ég var að elda mat og stóð og hrærði og hrærði og hélt einskonar ræðu um allt og ekkert á meðan. Notaði allra nýjustu röddina mína sem minnir mikið á rödd fólks sem heldur ræður sem byrja á: „Góðir hálsar, kæru íslendingar…“. Þegar ég var langt komin með ræðuna sagði ég: „þegar rússneski kuldinn hefur innreið sína inn í syðsta hluta Skandinavíu…“
Þá greip sá elsti á heimilinu fram í fyrir mér: „Við erum reyndar ekki syðst í Skandinavíu…!“
Ég: „nú, hvað er þá syðsti hluti Skandinavíu?“
F: „Krusaa“.
Hann sló mig alveg útaf laginu.
Sá gamli er nokkuð glúrin í landafræðinni 😉
En aftur að leiknum. Í mörg ár hélt ég svakalega upp á danska handboltaliðið og fótboltaliðið líka. Þekkti öll nöfnin, kg, aldur og hvert líkamseinkenni. Eftirá séð var þetta liður í aðlagast dönsku samfélagi. Ég las helling af dagblöðum, setti mig inn í stjórnmálin, dánarfregningar, glæpina og ekki síst íþróttirnar og ég sem hef aldrei haft neinn spes áhuga á íþróttum í fjölmiðlum. Ég hélt svo mikið upp á danska landsliðið að það íslenska féll í skuggann.
Nú er öldin önnur, ég get ekki aðlagast meira og er því byrjuð að afaðlagast.
Núna hoppa ég upp á sófaborðið og öskra: „ÁFRAM ÍSLANNNDDD“. Ég ræð ekkert við mig. Hef reyndar ekki grænan grun um þyngd þeirra né aldur en það væri fátt betra en að mæta í vinnuna á morgun eftir íslenskan sigur! Sérstaklega þar sem nokkrir vinnufélagar eru staddir í Herning núna til að horfa á leikinn.
Þetta svitaarmband er reyndar það eina sem ég á til að vera í á leikjum. Finnst það ekki nóg. Langar í buff með íslenska fánanum. Ef einhverjum langar að gefa mér afmælisgjöf strax í febrúar, t.d. 2. febrúar þá sting ég upp á íslensku fánabuffi. Það þarf helst að vera svoldið stórt svo ég geti brugðið mér í hinu mismunandi gerfi með því.
Vildi að þetta svitaarmband myndi hjálpa Íslandi í kvöld… vildi að það myndi senda svitaarmbandsstrauma alla leið til Herning.
Vandamálið er bara að ég er svoddan óheillakráka… Allt sem ég held með tapar. Gott dæmi er leikurinn Pólland-Hvítarússland um daginn. Ég held alltaf svoldið upp á Pólland og pólverja og þessvegna líka upp á handboltalandsliðið þeirra. Svo ég hélt með þeim. En síðan breytti ég um skoðun… fór að vorkenna hvíturússunum fyrir að búa í þessu fangelsislandi og hélt því með þeim… þeir voru líka fínt yfir og það leit út fyrir að þeir myndu vinna… En hvað gerist??? Pólland vann!!! Því ég breytti!
Alveg eins og þokan og rigningin eltir mig í fríunum mínum.
Þrátt fyrir það… ég er byrjuð að klappa!!!
ÁFRAM ÍSLAND!!!