Sloppaímugustur
Þegar ég vaknaði kl 15 í dag nennti ég ekki að klæða mig og hugsaði ósjálfrátt með mér: „mikið óskaplega væri gott að eiga frottéslopp núna…“ Og strax á eftir hugsaði ég: „SHIT, er ég að verða e-ð rugluð eða hvað???“ Síðan á unga aldri hef ég haft ímugust á bað- og morgunsloppum. Sérstaklega úr frotté. Sérstaklega úr rúmfatalagernum. Nei, bara öllum sloppum.
Þegar ég var barn átti pabbi á Akureyri dökkbláan kínverskan silkislopp. Man sem betur fer aldrei eftir honum í honum en man ég skoðaði hann oft… það var risastór páffugl í öllum litum á bakinu. Páffuglinn og pabbi pössuðu engan veginn saman. Pabbi er hestamaður, flakkari og stirður í meira lagi, en ekki nývaknaður, tedrekkandi kínverskur kommunisti.
Ég eignaðist ljósfjólubláan Rúmfatalagersfrottéslopp rétt fyrir fæðingu Aldísar. Einhver taldi mér trú um að það væri eitt af því sem maður YRÐI að hafa með sér á fæðingardeildina ásamt inniskóm. Liturinn var hreint umhverfisslys! Skil ekki enn þann dag í dag, afhverju ég var ekki sett í einangrun?!?
Það eina góða sem þessi hræðilegi sloppur gerði fyrir mig, var að stækka á mér rassinn. Ég var svoddan rengla eftir fæðingar og margra mánaða brjóstagjafir. En ekki gat ég nýtt mér þessa rassastækkun á almannafæri svo sloppurinn var aldrei notaður. Leyfði mér síðan að vera frekar flatrassa innan veggja heimilisins og öllum var sama.
Þegar Aldís gerði óskalista fyrir ferminguna sína árið 2009, skrifaði hún „sloppur“ á listann. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Hef alltaf verið ánægð með að dætur mínar fari sínar eigin leiðir og hermi ekki allt eftir mér… eeen þetta var einum OF! Ég sagði henni að stroka þetta út á stundinni. Hún æsti sig eins og henni einni er lagið og þverneitaði. Í nokkra daga lá við stríðsástandi á heimilinu. Það kæmi ekki sloppur inn fyrir mínar dyr. Aldís æsti sig meira, það lá við tárum og ég gaf mig. Ég bað í hljóði um að engin uppfyllti þessa ósk hennar.
Fermingardagurinn rann upp og einn pakkinn var sérstaklega mjúkur. Aldís varð himinlifandi…
…og í þessi 5 ár hefur frumburðafermingurinn notað þennan doppótta gæðaslopp oft í viku. Mér finnst hún krúttleg.
Það verður að segjast að þrátt fyrir æsinginn í mér virði ég annarra manna ást á rassastækkandi frottésloppum. Ég verð að virða venjur og val vina minna. Svo lengi sem engin þröngvar mér í þykkan ljósfjólubláan íllalyktandi Rúmfatalagersfrottéslopp og vinir mínir fyrirgefi mér sloppaímugustana.