Erum við mæður fórnarlömb?
Í dag deildu nokkrir grein á fb sem ber yfirskriftina „Ég á bestu mömmu í heimi“. Voðalega sætt.
Nema hvað í greininni er talið upp hvað aumingjans mamman hefur þurft að þola til að verða mamma.
Hún var veik af ógleði í nokkra mánuði og horfði beinlínis á húðina sína RIFNA. Hún svaf ekki baun og upplifði hrikalegasta sársauka sem til er í fæðingunni.
Eftir að barnið kom í heiminn, þurfti mamman að vera m.a. bílstjóri þess, kokkur, kennari og BESTI vinur?!? Og ekki má gleyma að hún einnig var ÞRÆLL barnsins síns!!!
Auk þess stritaði hún sér út og bað aldrei um neitt í staðin… vegna yfirgengislegs kærleiks!
Hvurslags bull er þetta??? og þetta fær 965 like?
Róum okkur nú facebookarmóðurdýrkunni… svona er þetta ekkert í raunveruleikanum.
-T.d. finna margar fyrir ógleði, en að vera beinlínis VEIKAR af ógleði hendir sem betur fer fáar.
– Það er t.d. ekkert svakalega vont að fæða í Sönderborg í dag, ótrúlega margar biðja bara um mænudeyfingu snemma í ferlinu takk, enda svo í bráðakeisara, sofa allt frá sér og vakna svo um miðja nótt hundlasnar. En fyrir utan það, þá er fæðingarsársauki ekki sá versti og vorkun er óþörf.
-öhhh bílstjóri? Kallast það að vera bílstjóri þótt maður skutlist svoldið með krakkana sína? Á ég einhversstaðar laun inni…? hvar? hversu mikið? Ó je, ó je, ójeójeóje…
– BESTI vinur? Ég þakka Maríu Mey og Jesús fyrir að dætur mínar eigi sínar eigin bestu vinkonur og ég mínar.
– ÞRÆLL… hvernig skilgreinir maður nafnorðið „þræll“? Er þetta ekki aðeins of orðum ofaukið?
-Og að síðustu, er ekki algjör óþarfi að gera móðurina að fórnarlambi með því að segja að þetta hafið bara verið strit og fórn???
Þessi upphefjun og dýrkun á móðurinni endalaust finnst mér svolítið undarleg. Eiginlega einum of væmin oft á tíðum og óraunhæf. Að vera móðir er bara gangur lífsins. Og líklega eitt af stærstu verkefnunum sem maður fær í lífinu, en ekki það erfitt og neikvætt að það minni á nokkurn hátt á þrældóm. Og hvar eru feðurnir. Þótt feðurnir þurfi ekki að horfa upp á húðina sína RIFNA á meðgöngu, þá er þeirra hlutverk ekki síður mikilvægt.
Við erum engin fórnarlömb og við erum öll jafn mikilvæg!