Fyrir hvern rakið þið á ykkur leggina?
„Ég spyr sjálfa mig, í hvert skipti sem ég er í sturtu… fyrir hvern er ég að raka á mér leggina?“
Þessi kona spyr sig… En ég þarf ekki að spyrja mig því ég veit það og hef alltaf vitað.
Ég raka ekki á mér leggina fyrir sjálfa mig, því mér finnst í rauninni þægilegt að fikta í leggjahárum og þau eru líka skemmtilega hlý.
Ég raka ekki á mér leggina fyrir hjásvæfuna því honum er alveg nákvæmlega sama hvort ég sé með loðna leggi eður ei. Hann er með athyglina allt annarsstaðar (hann var að byrja spila NAT GEO WILD).
Ég raka ekki á mér leggina fyrir vinkonurnar, því þær taka mér sem betur fer eins og ég er.
Ég raka ekki á mér leggina fyrir vinnufélagana, því þau myndu ekki taka eftir neinni breytingu.
Ég raka ekki á mér leggina fyrir djammið, því þeir sem leggjast svo lágt að skoða á mér leggina… þá er mér alveg sama um.
Ég raka eingöngu á mér leggina fyrir móttökunefndir slysavarðsstofanna og gjörgæsludeildanna… EF, EF, EF, EF vera skyldi að ég steypist af hjólinu eða lendi í annarsskonar slysi og verð sótt af sjúkrabíl, spænuð og stillt upp í miðju herbergi þar sem minnst 16 manna móttökunefnd tekur á móti mér og klippir af mér hverja spjör.
Eða ef ég veikist hrikalega mikið, en lögð inn á gjörgæsluna þar sem upp undir 10 manna móttökunefnd tekur á móti mér, svæfir mig og klippir af mér hverja spjör… Og ég get ekkert gert… nema reynt að líta sómasamlega út.
Og engin vill láta eftirfarandi standa í sinni læknaskýrslu…:
-Blóðþrýstingurinn féll krítiskt þar sem töf varð á að leggja sköflunganál (aðgangur í æð) vegna þykks hárlags…
-Hiti óviss í handakrika þar sem aðgangur er vita vonlaus vegna mjög þykks hárlags og óþekkts þykks efnis…
-Þvagblaðran sprakk eftir tilraunir í 5 tíma með að leggja þvaglegg. Skyggnið var afar slæmt…
Þessvegna. Maður veit aldrei!