Þorláksmessukvöld… endalaus rólegheit!
Þorláksmessukvöld og allt er með kyrrum kjörum í húsinu. E-ð annað en í gærkvöldi… Svalan hafði fengið leyfi til að bjóða ca 7 krökkum í lítið „party“ í herberginu sínu. Þau gátu hveeergi annarsstaðar verið og reyndar e-ð fátt um að velja fyrir 16 ára krakka hérna í bænum. Svo þetta var minnsta mál af minni hálfu. Þær sátu rólegar 4 stelpur og biðu eftir 3 strákum. Nema síðan er bankað og inn streymdu ca 15 stk 16 ára gaurar sem allir eru langt yfir 190cm.
Ég setti upp rosalegan gribbusvip og tilkynnti þeim að það yrði engin dans, hopp né önnur læti! Þeir tóku mig á orðinu og settust stilltir á rúmmið hennar Svölu… ca. 15 stk strákar!
Þegar ónefndur húsbóndi komst að því að rúmið hefði ekki þolað rúmlega 1 tonn, varð hann miður hress og setti í brýrnar. Það var farið í næstu búð og keyptar nýjar lappir. Ég ákvað að taka bara mynd aftan frá og á meðan studdi Vaskur hann andlega.
Fyrst ég er að skrifa um bóndann, þá þarf ég að segja ykkur frá snyrtivörukaupunum hans í dag. Ég er búin að vera að nöldra yfir því að hann sé svo lélegur að nota andlitskrem. Þótt ég sé á móti alltof mikilli snyrtingu hjá karlmönnum þá er samt í góðu að nota andlitskrem. Hann fór í Matas og sagði við afgreiðslukonuna: „Hæ, mig vantar krem…“
hún: „já, hvaða nafn?“
hann: „öhhh Sigfús…“
Þið þekkið líklega öll nýju snyrtivörulínuna Sigfús… gæða vara á fínu verði.
Annars er fjölskylda hérna í bænum sem gerir lítið annað en að redda mér þessa dagana. Ég skældi á fb yfir því að mig vantaði maskara…
Og haldiði ekki að Perla vinkona Svölu hafi ekki komið með maskara handa mér… glóðheitan úr Leifstöð.
Daginn eftir gaf ég í skyn á fb að mig langaði í Nóa konfekt…
Birtist Begga bara ekki í dag með heilt kíló!!!!!!
Ég gleymdi að fara í seinni klippingu og missti hárgreiðslukonuna mína úr landi.
Þá reddaði bara Aníta málunum og lagaði side cuttið mitt. Hún er ófermd en getur nánast allt! Gat samt ekki lofað að raka óvart rönd útfyrir eða í eyrað. Allt fór þó vel og ég heyri jafnvel og áður.
Takk kæru mæðgur!!! Þið eruð æði.
Það eru fleiri fjölskyldumeðlimir í þessari fjölskyldu. Spurning um að skrifa status um að mig langi í jeppa á Íslandi og sjá hvort Stebbi reddi því ekki fyrir mig.
Ég fékk snap í kvöld um að vinur minn væri að baka randalínu og langaði líka… hef aldrei bakað slíka áður en þetta gat varla verið einhver stjarnvísindi. Skellti í eina slíka kl 22 í kvöld og held að hún hafi tekist… en þvílíkt sull… ætlaði að gera þetta á mettíma og einhvernvegin virtist deigið smitast útum allt. Síminn minn er útmakaður, það er á 3 stöðum í hárinu á mér, það er deig í hnífaparaskúffunni og á myndavélinni. Síðan notaði ég írkst smjör í kremið sem ég keypti í Flensburg. Það var heiðgult og ilmaði sterkt af smjöri. Þegar ég smakkaði kremið þá var ég ekki í nokkrum einasta vafa um að þetta væri kúasmjör. Bragðið var svipað og þegar maður gengur um fjós með tunguna úti. Randalínan er farin niður í búr og bíður til morguns við hliðina á öndinni sem bíður spennt eftir að ég fylli hana af appelsínum og lauk.
Jólasveinninn sem er um 30 ára gamall og kúlurnar frá ömmu í Berlín skarta sínu og bíða jafnspennt og öndin til morguns… ásamt því að bjóða góða nótt.