Ameríska jólaglansmyndin

Fyrir hver jól sé ég amerísku glansmyndina fyrir mér þar sem fjölskyldan skreytir saman risastórt jólatréð og pabbinn lyftir ljóhærðu slöngulokkastelpunni upp og hún setur stjörnuna á. Á meðan stendur mamman og heldur utan um stóra bróðirinn og bendir skælbrosandi á stjörnuna…  og stóri bróðirinn er líka skælbrosandi og klappar. Svona hefur mér alltaf fundist þetta eiga að vera heima hjá mér…

Nema hjá okkur kaupum við oft rangt tré…  það er ekki eins fullkomið og á myndinni. Stundum er það 4sinnum of stórt í stofuna. Í ár, sem og fyrri ár, þurftum við að raka það. Er að verða nokkuð lúnkin í því og get því ráðlagt ykkur ef þið eruð í vandræðum og viljið raka tréð ykkar. Reyndar var ég upptekin við jólakortaskrif og lét því bóndann um bústörfin. Hann gerði þetta sæmilega fyrir utan að hann tók ALLT af bakhliðinni… svo að það kæmist nær veggnum… nú er það bókstaflega límt við vegginn. Pínu spes að horfa á og enganvegin í samræmi við amerísku myndina mína!

Ég var svo upptekin við jólakortaskrif að ég bað hann um að skreyta líka. Aldís sat sem fastast við ritgerðina sína og Svala gluggaði í glósurnar fyrir stærðfræðipróf á morgun. Svo hann skreytti einn. Nema ég fylgdist grant með. Hann ætlaði að setja gamlar gylltar og úreltar kúlur á tréð en ég náði að stoppa hann. Síðan vildi hann bara setja rauðar kúlur og ég samþykkti það til að tapa ekki jólastemmingunni. En krafðist þess að jólaskrautið hennar ömmu færi upp. Hann sagði NEI. Að það passaði ekki við rauðu kúlurnar… öhhh eins og allir vita er Sigfús litblindur eins og flestir karlmenn og því hefur hann ekkert um það að segja hvort að hlutirnir passi saman litalega séð eða ekki. Ég sagði að skrautið færi á tréð og ætti að vera efst svo að engin gengi það niður. Hann sagðist elska skrautið svo mikið að það ætti að hvíla í kassanum svo að engin gengi það niður.

P.s. skrautið hennar ömmu fór á tréð.

Og tréð var skreytt þrátt fyrir að hver væri í sínu horni. Nema Vaskur… hann flæktist í trénu… eða tréð flæktist í honum.

Ímyndin mín af jólatrésskreytingunni inniheldur líka smákökur og jólatónlist… en restin af familíunni vildi frekar hlusta á Radiohead-þátt á Rás 2. Ég elska Radiohead en ekki í desember. Eftir þáttinn barði ég í borðið, sagði hingað og ekki lengra… nú set ég jólatónlist á!!! Nei, Aldís stundi þungan og sagði að hún yrði bara að slaka á eftir ritgerðarskrif og eina leiðin væri að horfa á Sex and the city. Smákökurnar hef ég farið varlega í… vegna aðstæðna á facebook tímalínu bóndans í gærkvöldi.

Hjónabandið blómstrar sem aldrei fyrr og var karlinn svo indæll við mig í gær að pósta breyttri mynd af mér á tímalínu okkar beggja. Mér var alveg sama… brosti bara og fannst augljóst að ég væri gjörbreytt. En nei, það varð ekki raunin…

Ein rosalega góð ónefnd vinkona mín, sem sér mig að meðaltali 4sinnum í viku, þar af 3 daga í röð í níðþröngum íþróttafötum hafði ekki tekið eftir breytingunni fyrr en hún las eitt af kommentunum…. Ég hugsaði bara: „okay, ef Ágústa sér ekkert athugavert við myndina, og hún er líklega sú sem þekkir mig einna best líkamlega, þá sér ENGIN mun…!?!

Við fjölskyldan ræddum þetta yfir kvöldmatnum og þá kom í ljós að Aldís hafði heldur ekki séð neitt skrýtið… en samt sagði hún: „Það er bara eins og þú hafir fætt helling af börnum og mjaðmagrindin eftir því…“

P.s.s. hef aldrei þjáðst af grindargliðnun.

Semsagt… jólastemmingin er í hámarki hér á heimilinu… ég er greinilega orðin sjúklega mjaðmamikil eftir ofát af deigi, Fúsi hótar að birta nektarmynd af mér ef hann fær nógu mörg like´s, Aldís er við það að kasta upp af ritgerðarskrifum og Svala bægslast í prófunum. Til að bæta gráu ofan á svart, er ég að fara að sofa löngu eftir minn háttatíma og 2föld vakt bíður mín á morgun.

Ameríska glansmyndin mín er ekki alveg að gera sig í raunveruleikanum!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *