Hvolpi vantar far frá Hornafirði til Egilsstaða.
Fyrir nokkrum mánuðum missti ein vinnufélagan læðuna sína og tók sér frí í vinnunni í einn dag vegna þessa. Hún er einstæð og þær voru miklir félagar. Ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá varð ég örlítið hneyksluð yfir þessum frídegi… ef ég hefði alltaf fengið frí í sveitinni þegar e-ð dýr dó, væri ég enn í fríi.
En… eftir að Vaskur kom til sögunnar breyttist þetta viðhorf… þvílíkur félagi og fjölskyldumeðlimur sem hann er!
Þó hef ég mann og börn á heimilinu svo hann er ekki sá eini. Sumir hafa bara dýrið sitt.
Sænskur sálfræðingur hefur rannsakað gæludýramissi. Hann vill meina að oft þori ekki gæludýraeigendur að láta sorg sína í ljós því samfélagið samþykkir ekki sorgina í þeim mæli sem „syrgendur“ upplifa hana. Hann segir að viðbrögð við missinum geti verið sú sömu og þegar náin manneskja deyji, nema í tilfelli gæludýrs er maður fljótari að jafna sig. Eins kemur manneskja ekki í mannsstað, en dýr koma oft í dýrsstað. Greinin er hér á dönsku.
Um daginn dó Lappi, 9 ára gamli hundurinn þeirra mömmu og pabba í slysi. Hann var syrgdur útum allt Ísland, yfir til Norðurlandanna, niður í miðja Evrópu og í Boston.
Lappi var hundur sem var aðeins meira en hundur. Hann var gott dæmi um elskaðan félaga.
Sumarið 2011 fór hann með okkur mæðgum og Viktori í Stapavík.
Þótt hann hafði mjög gaman af þá var þetta „bad hairday“ (slæmur hárdagur) hjá honum og eyddi hann miklum tíma fyrir ofan spegilinn.
En nú er svo í pottinn búið að skarðið hans Lappa verður fyllt upp og því bíður lítill hvolpur á Hornafirði eftir fari austur í Hérað. Ef einhver veit um ferð sem allra fyrst, endilega látið mig eða foreldra mína vita. Allir eru spenntir.
Þetta hundalíf… hver hefði trúað að það myndi blandast mínu lífi?