Frí á fimmtudegi
Dagurinn í dag var æði sæði! Átti frí og byrjaði á því að fá mér morgunmat með þessari sjúku sultu. Get svo svarið það, hrútaberjasultan slær bláberjasultu við… og það þarf mikið til!
Hvar hef ég verið í 38 ár? Afhverju hef ég aldrei áður hitt hrútaberjasultu? Í alvöru, þetta er eitt af því besta sem Guð hefur skapað.
Könnurnar tvær á myndinni er 20 ára gamlar. Við höfum átt þær alla okkar búskapartíð… Þegar ég fór með Fúsa í fyrsta skipti á Seyðisfjörð til að kynna hann fyrir ömmu, hafði hún farið útí kaupfélag og keypt sitthvora könnuna handa okkur. Amma bjó á langbesta stað í bænum. Fyrir mér var þetta naflinn. Kaupfélagið á hægri hönd, sjoppan og bryggjan beint á móti, sjálfskipaður skemmtistaður í innri stofunni á meðan afi og allir hans vinir lifðu, fossinn á ská fyrir ofan, lækurinn við hliðina á innkeyrslunni, rifsber í garðinum, olíutankarnir í túninu og seinna uppgötvaði ég Ríkið á ská fyrir neðan til vinstri. Ég var í paradís alltaf þegar ég var hjá ömmu á Seyðisfirði.
Þessar könnur eru helmingi yngri en hinar. Stelpurnar eiga þær og fengu þær í Diddl æðinu fyrir 10 árum. Spáið í það… hvað ég á gömul börn!
Þarna var komið hádegi… ég hafði það of gott í dag! Í hádegisdessert var kaffi og súkkulaði útí sólinni og ég fékk freknur á bringuna. Ohhh sorry, gleymdi að taka mynd.
Síðan fór ég í vinnuna í 90 mín… tek nýju stöðunni minni einum of alvarlega!
Þar á eftir fór ég í tíma í fitnessstöðinni minni, og þar var kona sem ég hef vitað hver er í mörg ár og alltaf smáspjallað annaðslagið við hana. Ég mundi ekki nákvæmlega hvað hún heitir og spurði því: „heyrðu, ef ég á að vera alveg hreinskilin þá man ég ekki hvort þú heitir Dorit, Doris, Dorte eða það fjórða…? Hún: „ég heiti Ida…“ Jesús hvað ég get verið þroskaheft… Til að leyfa ykkur að vita hversu þroskaheft ég er, þá byrjaði ég að umgangast þessa konu árið 2008 þegar við vorum nágrannar í vinnunni. Síðan fór hún að stunda city fitness og þar höfum við oft og iðulega verið saman í tímum. Núna er deildin hennar komin undir deildina mína (sama stjórn) og við aftur byrjaðar að umgangast bæði í vinnunni og í ræktinni. Það tók mig 5 ár að finna útúr hvað hún heitir.
Vaskur fær oft dót og ég vil helst gefa honum dýr til að gera umhverfið meira sveitó. Held samt að hann eigi ekki heima í sveit þegar allt kemur til alls…
Hann tætir öll dýr í sig. Ef vel er skoðað eða myndin stækkuð, sést að það vantar hluta af lendinni á svíninu og það er galtómt að innan. Hægri afturlöppin er vel laus á kúnni og hauskúpan er innfallinn. Hún er líka tóm að innan. Allt innvolsið og önnur innyfli liggja bara eins og hráviði allt í kring. Og þetta snertir hann ekki…
Og hann er sjúklega hræddur við hesta… hann átti að fá að nusa af hesti í skóginum í dag en þegar hesturinn nusaði af honum í staðin tapaði hann sér úr hræðslu.
Í fyrradag höfðum við læri í matinn. Í dag, þegar það var orðið þurrt á úti fékk hann beinið með örfáum tæjum á. Hann komst í sjöunda himinn. Ég vissi ekki af honum í marga kl.t. Hann er síðan vanur að grafa beinin þegar hann er búin að fá nóg. Þegar Fúsi kom heim, lagðist hann í sófann eins og sönnum karli sæmir en Vaskur trompaðist. Hann hamaðist í Fúsa með ýmsum hætti þangað til hann stóð upp… „hvað í ósköpunum gengur að hundinum…?“ Þá kom í ljós að Vaskur hafði „grafið“ beinið í sófanum… á bakvið púða og undir bakpulluna.
Þetta var hinn yndælasti fimmtudagur.