Kulusuk (Qulusuk)
Ég er búin að treina síðustu Grænlandsfærsluna í lengstu lög… svona eins og laufabrauð, þar sem maður er að borða síðustu kökuna í mars með malti og appelsíni og allt á síðasta söludegi. Örlítil upprifjun… Við fórum til Tasiilaq á mánudeginum 5. ágúst og gistum þar 2 nætur. Á miðvikudeginum var heimferðin en með margra kl.t. stoppi í Kulusuk. Fyrri færslurnar um Grænlandsferðina eru í ágúst „möppunni“.
Flugvöllurinn liggur nokkra km (ca 4 minnir mig) frá þorpinu þar sem búa um 300 manns. Það er malarvegur á milli en fyrir túrista eins og okkur er eina leiðin að fara gangandi.
Það eru hvorki strætóar, taxar né bílaleigubílar.
Á leiðinni er gengið framhjá kirkugarði og í fjarka sést flugvöllurinn. Ég tók svo margar myndir af kirkjugörðunum í ferðinni enda eru þeir eitt af því merkilega á þessum stöðum fyrir ferðalang eins og mig.
Það er ekkert mikið að sjá á leiðinni… þangað til maður gengur uppá hól hjá kirkjugarðinum… þá blasir við þorpið, fjörðurinn og fjöllin.
Rétt við bæjardyrnar og meðfram veginum var annar kirkjugarður. Þar sást glitta í allmargar trékistur því steinarnir höfðu hrunið af eða það hefur verið dysjað ílla. Heitir þetta ekki annars rað dysja?
Við vorum snemma á ferðinni, áttum þyrluflug kl 7 frá Tasiilaq og vorum komin í þorpið í Kulusuk rétt fyrir 9. Þorpið var vaknað og tóku þorpsbúar skælbrosandi á móti okkur.
Þessi var hamingjusamastur og fyllstur. Hann virtist bara vera einn á djamminu. Kl. 9 á miðvikudagsmorgni. Margir aðrir voru líka á djamminu, ýmist 2 og 2 saman eða í hópum.
75% bæjarbúa eru atvinnulausir. Hjúkkan er dönsk, kennarinn er danskur, minjagripabúðareigendurnir eru íslenskir, einhverjir flugvallarstarfsmenn eru danskir, þyrluflugmaðurinn er norskur, einhverjir danir eru á pósthúsinu osfrv.
„Kaupfélagið“ var opið þegar við komum og þónokkur traffik. Þar var sama sagan og í Tasiilaq, frystirinn fyllti mest og tilbúnu dönsku réttirnir voru allsráðandi. Allan tímann sem við vorum þarna var straumurinn af börnum inn og útúr kaupfélaginu. Þau voru hin glöðustu og keyptu nammi í kílóatali allt í allt. Einn hópurinn stóð af 4 strákum ca. 8-10 ára. Þeir kölluðu brosandi til okkar „get out of here“… og hlógu svo. Þeim fannst þetta ótrúlega fyndið og því hljómuðu þeir eins og biluð plata… „get out of here“ „get out of here“ „get out of here“… með fangið fullt af haribo kl 10. Við brostum, gáfum þeim tyggjó og spurðum hvað þeir væru að fara að gera… „spille computer“… of course…
Þetta er ströndin í Kulusuk… frekar kuldaleg!
Húsin eru týpisk grænlensk, timburhús í rauðum, bláum, gulum og grænum litum. Hugsið ykkur ef það væru rauð og gul múrsteinshús eins og í DK… það væri hræðilegt!
Það hefur líklega ekki verið neinn súkkulaðibíll þarna eins og í Tasiilaq, því þennan morgun gekk maður inn og útúr húsum með þessar 2 fötur og tæmdi.
Tónlistarhúsið þeirra brann og Ólafur Ragnar Grímsson kom í heimsókn í vor/sumar og lofaði nýju tónlistarhúsi í boði Íslands. Þeir voru e-ð sárir yfir að það var ekkert byrjað að gera og ekkert hafði heyrst um áætlanir. Auk þess sögðu þeir að heimsóknin var líklega dýrari en nýtt hús. Þetta var víst mjög fín heimsókn með miklu fylgdarliði og fyrirhöfn.
Eina veitingasalan í þorpinu var kaupfélagið og þar var ekki hægt að kaupa heitt kaffi né setjast niður. Þar sem serum-coffein (mælist í blóði) var orðin hættulega lágt hjá okkur öllum og ekki síst hjá mér urðum við að fá einn skammt. Hittum eina sem benti okkur á þjónustuhúsið í miðju þorpinu. Í þjónustuhúsunum þvær fólkið þvottinn sinn, fer á klósettið og í bað. Og þar var hægt að kaupa kaffi… bara sí sona í eldhúskróknum þar sem grænlensku konurnar sitja og bíða eftir að þvotturinn verði hreinn. Strákurinn sem sá um að búa til kaffið og vaska upp könnurnar eftir mann, var klæddur eins og arabatöffari… í hvítar joggingbuxur og í hvítan bol… hann mátti eiga afganginn hjá mér… hann var svo indæll. Þjónustuhúsið er gráa húsið lengst til hægri á myndinni fyrir ofan.
Það var ekkert fjall í nágrenninu sem ég gat toppað á svona stuttum tíma en í staðin fór ég uppá þorpshólinn og tók eina sjálfsmynd.
Ofan af hólnum er þetta fína útsýni yfir ruslahaugana og fjörðinn.
Heimsóknina til Kulusuk enduðum við á að sjá innfæddan inuita sem heitir Anda syngja og dansa trommudans til að ná sambandi við andanna. Þetta var mjög skemmtilegt og gaman að sjá svona gamla hefð „live“. Það er lítið video á instagramminu mínu af Anda.
Ferðin til Kulusuk var mjög áhugaverð og þetta er fallegt þorp með fallegu fólki. Þeir virðast hamingjusamir, sækja „launin“ sín til bæjarstjórans og djamma duglega.
Okkur var orðið frekar kalt stuttu fyrir flug eftir töluvert hangs því það er takmörkuð afþreying í Kulusuk og hvergi hægt að vera inni. Auk þess var meirihluti fóta orðin nokkuð lúin eftir ferðina og því urðu fagnaðarlæti hjá okkur þegar okkur var bent á að Bent, póststjórinn skutlaði fólki í flug gegn gjaldi… Ég hef aldrei tekið svona dýran taxa áður (250kr) en jafnframt var þetta besti taxi sem ég hef nýtt mér, þótt það hafi ekki verið sæti afturí.