Reynt við Strandartindinn með Sessu
Ég ætla að skella í færslu eins og aðrar húsmæður skella í tertu… Og færslan ætti að vera topprómantísk því youtube er á bakvið með svo sjúklega rómantísk lög að annað eins hefur ekki heyrst í mínum húsum um árabil. Þ.e.a.s. ekki á þessu stigi. Reyndar er þetta á mörkunum að vera rómantík og ástarsorg… ástarsorgarlögin eru bara svo falleg! Vissuði að uppáhaldið mitt síðan ég var 15 eða 16 ára, er Love hurts með Nazareth? Það hljómaði heldur betur vel í Pioneer græjunum mínum, tengdum við Akai hátalara hérna í denn.
Annars átti þessi færsla að fjalla um fjallgönguna okkar Sessu, sem er æskuvinkonan að austan. Kannski er bara vel við hæfi að spila rómatíska-ástarsorgartónlist í færslu tengdri Sessu, því hún tók virkan þátt í þessum málum seinast á 20. öldinni.
Allavega… anyways… sem sagt allavega… þá langaði mig alveg sjúklega upp á Strandartindinn (1010m) á Seyðisfirði í sumar. Ég varð bókstaflega heltekin… og talaði stanslaust um tindinn í ca. 3 daga. Mamma var orðin frekar rangeygð og líklega löngu hætt að hlusta.
Á sunnudeginum 4. ágúst ókum við Sessa niður á Seyðisfjörð, upp á von og óvon… veðurspáin var frekar óstöðug og búin að vera þoka í fjöllunum síðastliðnu daga. En mig langaði svo.
Við spurðum Daða fjallgöngugarp til vegar og héldum af stað upp um miðjan morgun.
Þarna er tindurinn til vinstri, en það er best að fara upp hægra megin við Dagmálatindinn sem er tindurinn til hægri og labba svo eftir bríkunum. Við vorum spenntar og gerðum okkar besta til að gleyma okkur ekki í berjasvertunni/blámanum í hlíðum fjallsins.
Við urðum að ná á tindinn áður en þokan kæmi.
Fyrir miðri mynd, í klettunum er foss sem fauk lóðrétt upp í rokinu… það var varla stætt á köflum! Það er hægt að stækka myndina en munið að þetta eru bara símamyndir.
En hvað gerðist??? Þokan læddist yfir… Veðurheppna ég! Þokan varð bara dimmri og dimmri og ekkert annað að gera en að snúa við… ótrúlega spælandi og ergilegt… komnar upp í snjó og ég sem hafði hlakkað svo til! Mér leið eins og ég hafði tapað og átti það eftir að kosta mig frekar erfiða göngu í frekar hættulegum aðstæðum seinna í sumarfríinu… maður tapar ekki tvisvar á tveimum vikum!
En félagsskapurinn bjargaði ferðinni… við töluðum og töluðum og töluðum og töluðum og töluðum og töluðum og töluðum og töluðum. Eins og við hefðum ekki sést í 2 ár!
Og þokan sat sem fastast…
En ég fékk mér bara íslenskt vatn eins og það gerist best!
Og fann annað hreindýrshorn… (sjá færslu um Loðmundarfjörð)… ég get því sagt að ég sé veðuróheppin en hreindýrshornaheppin.
Þrátt fyrir þoku var gangan þess virði… við ætlum að reyna aftur í næstu íslandsheimsókn, ef það verður þoka þá tölum við bara og tölum í staðin. Eða hvort sem það er þoka eður ej.