Mesta montblogg það sem af er ársins!
Í Danmörku eru til óskrifuð lög sem heita Janteloven og ganga út á það að vera ekki betri en aðrir.
Þetta þýðir ca. „þú skalt ekki halda að þú sért eitthvað“
Í þessari færslu ætla að ég að gefa skít í þessi lög og fara fram úr sjálfri mér í sjálfsánægju og deila henni með ykkur án þess að blikka.
Síðast í maí var ég kölluð inn á skrifstofu deildarhjúkkunnar í leynilegt viðtal… Hún var ekkert smá alvarleg og ég vissi ekki hvað á mig stóð veðrið.
En fyrst að útskýringum fyrir alla lesendurna sem ekki vinna á gjörgæslunni… sem sagt ALLA lesendurna.
Okkar gjörgæsla samanstendur af 55 umönnunarstarfsfólki. Það deilist á eftirfarandi hátt:
- 31 gjörgæsluhjúkkur
- 10 hjúkkur sem eru að læra gjörgæsluna (á mismunandi stigum)
- 10 nýjar hjúkkur sem eiga að læra gjörgæsluna þegar hinar eru búnar
- 4 sjúkraliðar
- og alltaf slatti af hjúkkunemum næstum allt árið.
Hjúkkurnar sem eru að læra „gjörið“, fá 2 gjörgæsluhjúkkur sem leiðbeinendur og sem fylgja þeim í gegnum sætt og súrt í þessi 2 ár. Nýju hjúkkurnar fá eina, þangað til þær fara að læra.
Um hjúkkunemana sjá 2 „kliniske vejlederer“ eða leiðbeinendur með leiðbeinandamenntun. Á okkar deild eru það 2 góðir karlar. Þetta er ein af þeim stöðum sem gefa mesta launauppbótina og einnig hellings vinnu.
Allavega… ég var/er leiðbeinandi fyrir 2 yndislegar hjúkkur sem eru að læra gjörið… önnur hálfnuð og hin nýbyrjuð. Mér finnst þetta rosalega gaman en oft mjög erfitt, þar sem ég er svo „ný“ sjálf. Aðeins 1 ár síðan ég kláraði.
En aftur að deginum þar sem ég var kölluð inn á skrifstofuna hjá bossinum. Hún var skuggalega alvarleg og ég varð alveg stressuð.
Síðan sagði hún mér að annar hjúkkunemaleiðbeinandinn vildi hætta og bara taka lífinu/vinnunni með ró. Ég bara: „já?“ Og það var þá sem hún sagði að hún og hinn leiðbeinandinn vildu að ég tæki þetta að mér. Að þetta yrði ekki auglýst, heldur myndu þau velja. Ég bara: „öhhh why me???“ Og hún svaraði:
- því þú ert góður kennari
- skipulögð
- óhrædd við árekstra
- og meira skipulögð
- og passar fullkomnlega inn í þetta hlutverk með karlleiðbeinandanum
Og það var þá sem allt blóðið hvarf úr öllum líkamanum og ég fann hvernig það seytlaði út á milli tánna og fyllti skónna og síðan byrjaði að streyma upp úr og útá gólf og ég vissi að ég myndi renna í því ef ég stæði upp.
Því mér finnst:
- mjög erfitt að miðla frá mér
- er hryllilega óskipulögð
- árekstratreg…hata árekstra og fel mig inní skáp!
- og er enn meira óskipulögð
- en ok, fíla karlleiðbeinandann mjög vel, sérstaklega þegar hann er drukkin.
En ég sagði samt já… þarna sem ég sat, algjörlega stjörf og blóðlaus.
Og svo sagði hún mér að hugsa málið og ekki segja neinum því þetta væri svo viðkvæmt ennþá og það þyrfti e-ð að undirbúa… og ég þagði og þagði í nokkrar vikur og sagði já já já já! Auðvitað vildi ég þessa stöðu!
Á meðan ég þagði, þá varð mér það ljóst að við erum 31 gjörhjúkka og af þeim hefðu 25 getað komið til greina… en ÉG var valin!!! Mér finnst það stórkostlegt! Ég fer að læra meira og á eflaust eftir að þroskast og fullorðnast heilan helling. Til hamingju ég!
Núna er þetta loksins orðið opinbert og allir vita… og það eru misjafnar hamingjuóskirnar því það gætir alltaf á einhverri öfund þar sem mörgum hefur eflaust langað í þessa stöðu.
Og 3 hjúkkur voru svekktar… alveg pissisárar! Það voru þessar 2 sem ég er leiðbeinandi fyrir og svo ein sem var með mér í gjör-skólanum og við höfum verið að vinna að verkefni saman sem er langt komið. Þessu öllu þarf ég að afsala mér… algjört svekkelsi. En í staðin getum við djammað duglega og sleppt fram af okkur beislinu og ég þarf ekki að vera fyrirmynd.
Fram til ársins 2004 ætlaði ég sko ekki að verða hjúkka…ég ætlaði að verða félagsráðgjafi. Síðan fór ég læra hjúkkuna 2005. Fram til maí 2013 ætlaði ég aldrei að verða kennari… en núna er ég komin þokkalega nálægt kennarahlutverkinu!
Ég verð góð með reglustikuna… veit samt ekki hvað ég á nota hana á deildinni… (einhverjar hugmyndir?). Ég gæti mögulega misst hana í augað á mér, því mér tókst að missa 60ml sprautu í augað um daginn!
Og aftur: TIL HAMINGJU ÉG SJÁLF!
Nau nau nau til hamingju fyrir að vera mikklu betri en allir hinir 😀
Frábært Dagný og hjartanlega til hamingju ég efast ekkert um að þú ert lang best af þessum öllum 🙂
Til hamingju snillingur 🙂
Til hamingju þú 🙂 Snillingur ertu