Vaski lesin pistillinn…og það virkar!

Alltaf þegar ég fer með Vask útfyrir lóðina, les ég honum pistilinn. Svona ósköp svipað og þegar ég las stelpunum pistilin í bílnum á leið í heimsóknir hérna í denn.

abc_angry_mom_100511_mn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það svínvirkaði alltaf… nema þegar þær kveiktu í húsinu hjá afa sínum og ömmu á Eiðum… eða brutu risastóru kristalsskálinu hennar Lellu föðursystur… eða þegar þær kveiktu í húsinu hjá afa sínum og ömmu í Fellabæ city eða þegar þær rifu ofninn af vegg, ásamt stykki úr veggnum hjá Reyni og Þrúði í Dybböl. Þær voru svoddan englar og hlýðnar með eindæmum.

Þegar ég les Vaski pistilinn segi ég: „Vaskur, þú mátt allsekki…“ og síðan eftirfarandi…

  1. gelta að fólki
  2. gelta að hundum
  3. gelta að hestum
  4. elta fólk
  5. elta skokkara
  6. elta hesta
  7. velta þér upp úr skít
  8. velta þér upp úr hræum
  9. éta hræ
  10. éta hálflifandi dýr
  11. æða útí drullupytta án míns leyfis
  12. hoppa upp á fólk sem vill heilsa þér
  13. hoppa upp á fólk sem vill ekki heilsa þér
  14. éta lifandi randaflugur (því ég veit ekki hvað ég á að gera ef þær stinga þig í hálsinn)
  15. láta krákurnar plata þig
  16. kúka beint fyrir framan röð af bílum sem bíða á rauðu ljósi
  17. æða áfram þannig að það koma hrygluhljóð úr þér
  18. æla af æsingi
  19. borða æluna
  20. leika skyndilegt heyrnarleysi

Vaskur virðist skilja hvert einasta orð…

2013-05-08 11.46.09

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og svarar mér grafalvarlegur með augnaráðinu: „hey, ég skil, ég er reddý og verð eins og engill“

Síðan endurtek ég pistilinn í bílnum á leiðinni á ströndina eða í skóginn og Vaskur situr fallega í beltinu sínu og hlustar og skilur mig og fer síðan algjörlega eftir því sem ég hef sagt við hann… eins og stelpurnar þegar þær voru litlar.

2013-05-09 19.34.09

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Enda á ég engar myndir af honum geltandi að fólki né dýrum, étandi hræ eða haugdrullugum upp fyrir haus því þessir hlutir gerast ekki 🙂

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *