Á milli jóla og nýárs 2012
Ég elska jólagjafirnar mínar, hér sjáið þið örlítið brot af þeim.
Ég fékk helling af því sem ég óskaði mér…
Vinnurnar:
- rúmföt frá vinnunni hans Fúsa, þau eru æði!
- 4 grillhnífapör frá vinnunni minni
Héðan og þaðan:
- skó, trefil, kerti, 5 peysur, 4 svört Íslönd, eldhússtöff, íslenskt nammi
Bækur:
- Bjarna-Dísa; búin með hana, og hún er góð og mjög fljótlesin. Á eftir að hugsa um hana næst þegar ég verð á Héraði/Seyðisfirði/Fjarðarheiði í byl.
- Kuldi; er að lesa hana og er spennt
- Ken Follett, Winter of the world, nýjasta bókin hans; hlakka svakalega til en dreg andann djúpt áður en ég byrja
- Návígi á Norðurslóðum; Fúsi fékk hana og ég hafði hana bara með á myndinni til að láta fólk halda að ég hefði fengið hana.
- Þriðju E.L.James bókina; þótt ég hafi lesið nr 2 á 27 mín og gubbað 2svar, verð ég að eiga allar þrár í hillunni minni.
DVD:
- Stiklur
- Svartur á leik; búin að horfa og finnst þetta besta íslenska glæpamynd sem ég hef séð (og já, er búin að lesa bókina)
CD:
- Jónas Sig og lúðrasveit Þorlákshafnar; búin að hlusta oft. Vissi að hann væri góður en hann fór langt framúr öllum væntingum (nei, lána hann ekki, kaupið hann sjálf… hann er þess virði að eiga)
Ein af jólagjöfunum á myndinni vegur 420 grömm en ég er ekkert fúl lengur.
Takk elsku fjölskylda og vinnur, ég er ánægð með ALLT.
Annars gekk aðfangadagur nokkuð snuðrulaust fyrir sig, engin brenndi sig, engin og ekkert gleymist og ekkert innbrot hjá okkur. Það versta sem kom fyrir var að Fúsi fékk 2 stk hægrifótar gönguskó nr 41 og 43,5. Það hlakkaði í honum og nú finnst honum við jöfn. Hann hefur árlega verið minntur á leðurstígvélin sem hann gaf mér árið 2000… þau voru nr 42 (ég nota 39). En í ár var þetta ekki mér að kenna, heldur búðarstráknum. Það næstversta varþegar Svala sótti pakka, rétti pabba sínum, sem átti að rétta mér. En hann Sigfús minn tók bara pakkann og byrjaði að reyna að opna hann. Pakkinn var kyrfilega bundin aftur svo e-ð brösulega gekk þetta og eins truflaði tryllingslegt augnaráð mitt, hann. Pakkinn var nefnilega til mín. Og ekki nóg með það, hann var frá Sigfúsi mínum. Og enn ekki nóg með það… hann pakkaði honum inn sjálfur! Og batt hann svona kyrfilega saman sjálfur! Og það stóð: „Til Dagnýjar Frá Fúsa. Hann áttaði sig þó þegar ég var næstum búin að kveikja í pakkanum, sófanum og Sigfúsi mínum sjálfum með eldingsgneistum úr augnaráðinu.
Þegar við sóttum jólatréð útí sveit, greip okkur mikilmennskubrjálæði og tókum við feitasta og stærsta tréð á Suður Als. Í gær réðist önnur dóttir okkar á það eftir að jólatréð réðist á hana. Ég er líka búin að vera að spá í að bjóða nágrönnunum yfir í þýskan hamborgarhrygg (eða var það hamborgarahrygg?) ala Ísland. En sá engan vegin hvernig ég ætti að geta stækkað borðið og komið öllu fólkinu fyrir í litlu borðstofunni okkar þegar jólatréð hefur hertekið alla fermetrana. Þessu hef ég velt fyrir mér síðan áður en fórum til Hamburg. Í Hamburg spáði ég líka í þessu.
Í dag fékk ég nóg, þegar jólatréð káfaði svona svakalega á mér. Ég sótti uppáhaldsgarðklippurnar mínar og klippti tréð. Við fengum öll jólaklippingu, tréð fékk millijólaognýársklippingu! Og þar sem það var nánast rakað, varð ég að skreyta upp á nýtt. Þið ykkar sem lásuð seinustu færslu, munið kannski að Aldís setti fleiri hundruð kúlur í 5 höfuðlitum með dashi af bleikum, bláum og gylltum á tréð. Í dag ákvað ég að hafa tréð röndótt. Hvítt, rautt, fjólublátt, silfur, svart með dashi af bláu, bleiku og gylltu.
Ég á mér 3 uppáhaldsjólaskraut. Það er rauði leirgluggaskórinn minn sem ég fékk þegar ég var kornabarn. Síðan er það jólasveinaklukkan sem við Sigfús minn keyptum okkur í Glasgow árið 1998. Og að lokum er það jólatrésskrautið frá ömmu í Berlín. Á tímabili (þegar ég var á gelgjunni) notaði ég það ekki því það passaði ekki inní hin ýmsu þema, en núna, eftir að ég þroskaðist, fær það að vera á fremstu greinum.
Þarna er tvennt ömmuskraut af 8 stykkum af skrauti sem ég erfði. Og þetta er gamalt, get ég sagt ykkur, líklega mikið eldra en ég sjálf!
Nú, þegar ég hafði burstaklippt tréð, skreytt það uppá nýtt og skapað töluvert pláss í minni litlu borðstofu, ásamt því að vera vinna í minnsta lagi yfir hátíðirnar, ákvað ég að taka mig saman í andlitinu og baka. Og ætla að halda jólakökuboð 28. desember og bjóða óformlega öllum vinum okkar sem við elskum og elska okkur tilbaka. Ykkur er hérmeð boðið og þá getiði séð snyrtilega klippta röndótta jólatréð okkar.
Ég er farin að horfa á Stiklur 🙂