Dagskráin 2 dögum fyrir jól
Í gær 20. desember skrifaði ég jólakortin og sendi. Þótt ég hafi verið sein fannst mér ég ekki geta sleppt þeim, þótt ég hafi hvorki sent mynd né ljóð. Í staðin sendi ég hugsun og fullt af kærleik. Það er nefnilega málið… hverju korti fylgir falleg hugsun, minning eða gífurlegur söknuður.
Ég hef alltaf sagt að jólakortahefðin fari með mér í gröfina. Ektamanninum finnst alveg hægt að grafa jólakortagerðina núna. Mér þykir svona óskapans gaman að fá jólakort -ég hreinlega elska það! Ég verð svo meðvituð um að ég er ekki gleymd þótt ég sé langt í burtu.
Í vinnunni hafa verið kassar upp á borði með heimagerðum jólakortum til sölu. Hvert stk kostar 25 kr. Vinnufélögurnar voru e-ð að kaupa en ég var nísk og tilkynnti öllum sem vildu heyra að ég sendi 50 jólakort og það kostaði altså töluvert plús frímerkið til útlanda. Þær sögðu: „50 stykki?!!!?“ Ég sagði: „já!“
Ég hef reyndar sagt öllum sem hafa nennt að hlusta á mig undanfarin ár að ég sendi 50 stk. Og alltaf sömu viðbrögð: „50 stykki?!!!?“ Og ég get svo svarið það við Guð og aðra menn að það voru 50 stk…
Þegar ég skrifaði kortin í gær, skrifaði ég eftir kortunum sem ég fékk í fyrra… „e-ð fyrir e-ð“. Nema ég sleppti okkar góðu vinum í Sönderborg og annarsstaðar í DK. Ég skrifaði í allt 27 kort. 27 kort!!! Það er ekki neitt!!! Ég er ekki að fara að leiðrétta sjálfa mig í vinnunni… ég ætla alltaf að segjast senda 50 kort og láta alla halda að ég eigi ótrúlega stóra fjölskyldu og marga vini sem muna eftir mér og senda mér hlýja kveðju í gegnum jólakort.
Ég held innst inni að þessi 50 stk fjöldi hafi verið fyrir allmörgum árum, ef hann hafi einhverntíman verið raunveruleiki… (fyrir utan jólaþakkarkort eftir fermingarnar) en leyfi sjálfri mér að halda að þau hafi verið 50. ALLTAF!
Í gærmorgun bakaði ég líka á 0.5 sek og það tókst fínt. Í gærkvöldi bakaði ég á 0.3 sek og 3 plötur fóru í ruslið… og ég pirraðist ekki einu sinni.
Aldís, eldri dóttir mín er óttalegur engill (líka þegar hún kemur perufull heim og sofnar í tröppunum). Hún hlýðir mér í einu og öllu, bókstaflega. Í gærkvöldi þegar ég var að baka þessar fucking ömurlegu smákökur, skreytti hún jólatréð. Við eigum mjög margar kúlur, alveg síðan við byrjuðum að búa saman og e-ð erfðist eftir ömmu í Berlín. Þetta er stór pappapoki og 4 plaststaukar af kúlum. Ég bað Aldísi um að skreyta og hún gerði það… hún setti ALLAR kúlurnar á tréð! í ár er þemað rautt, silfur, fjólublátt, hvítt, gyllt og svart, með dash af bláu, grænu og bleiku.
Í dag fórum við Aldís til Flensburg (ekki í Hafnarfirði) til að sækja svín og önd. Eftir að hafa sótt dýrin vorum við orðnar svangar, þrátt fyrir að Aldís hafi fengið ókeypis pulsu í hendina úr kjötborðinu og allt smakkið sem var í gangi. En það er ekki um margt að velja í CittiPark svo dóttirin sá sér leik á borði og þvingunarfóðraði mig (eins og Foie gras) með því sem ég þoli minnst.
Á leiðinni út langaði mig að verða amma svo ég gæti keypt tösku handa litlu barni sem fer oft í gegnum flugvelli. Efri taskan er bakpoki, en sá neðri er trolley/handvagn og ég myndi kaupa mörgæsina…
Á leiðinni heim komum við við á landarmærunum til að kaupa kók. Dóttirin var náttúrulega með græjurnar á hreinu í bílnum en þar sem við ætluðum bara að skjótast inn og kaupa þetta kók, nennti hún ekki að ganga frá… og ekki viljum við láta brjótast inn í bílinn… svo við földum græjurnar… og gírstöngina 🙂
By the way, þetta er íslensk hönnun.
Kæru vinir, gleðilega síðustu aðventu -við ætlum að eyða henni oní baðkari á hotelherbergi í Hamburg <3