þunglyndi vs harka
Hér situr maður á föstudagskvöldi aleinn í sófanum, báðar unglingurnar að spóka sig í miðbæ borgarinnar og Sigfús liggur flatur í hinum sófanum og veifar löppunum til að fá gang í æðardæluna, því e-ð virðist vera í stoppi vegna reykinganna síðastliðin 30 ár.
Hann Sigfús minn spurði Aldísi hvort hún vildi horfa á Hunger games í kvöld. Aldís sagði nei því að hún væri að fara í bæinn. Ég sagði að þau hefðu hvorteðer ekki getað horft á HG því ég væri að fara að horfa á Útsvar. Þá fer Sigfús minn að hlægja og spyr hvort ég ætli virkilega að horfa á 80´s spurningaþátt á RUV? Ég kvað já við og sagði að þetta væri bara fínn þáttur. Aldís tók þá um höfuðið á sér og hrópaði upp: „OMG, ég trúi ekki að ég går glip af bóndaquizþætti með bóndaspurningum, ég deyyyyy!!!!!!“
Fjölskyldan mín er svo þroskaheft… stundum meika ég þau bara ekki!
En að öðru. Veit ég var frekar lame þarna um daginn, að gera grín að sálfræðiaðstoð… svona gerir maður ekki, veit, sorry. En finnst samt algjör óþarfi af fólki að sárna. Þetta var bara í góðu. Ég hef ekkert á móti sálfræðiaðstoð og finnst ekkert asnalegt við það. Það hlýtur að meiga gera grín að þessu eins og fötluðum, aröbum (jolla jolla, hva só fedde), litlu fólki, feitu fólki, skizzóum og bara öllum. Það má gera grín að öllum og öllu (með örfáum undantekningum) og þessvegna líka sálfræðiaðstoð. Málið er eiginlega að ég þarf að játa svolítið fyrir ykkur… ástæðan fyrir þessu ljóta gríni var eiginlega sú að ég er pínu hissa og hef verið hissa í svoldin tíma.
Mér finnst fjöldi þeirra sem „ganga niður með stress“ (gaa ned med stress), eða hvað sem þetta kallast nú á íslensku, vera ótrúlega mikill. Og stór hluti af þeim fá þunglyndi. Og svo eru það þeir sem fá þunglyndi án þess að ganga niður með stress. Nú er ég mest að horfa á þann hóp fólks sem er í svipaðri stöðu og ég sjálf. Með fasta vinnu, fjárhagslegt öryggi, venjulega fjölskyldu (útávið) og gerir eins hluti og hin ósköp venjulega meðalfjölskylda gerir. Fólk hrynur bókstaflega niður. Og ég fatta það ekki! Ég fatta hreinlega ekki hvað er svona erfitt. Tökum vinnuna mína sem dæmi. Týpisk eða frekar róleg gjörgæsludeild, mikið vagtaálag, stundum flóknir sjúklingar, fínir vinnufélagar, alltaf e-ð nýtt að koma, ný tölvuprógröm, nýjar vélar, nýjir læknar (margir ótrúlega myndarlegir) og spælandi laun. En hvað er það sem er svona erfitt að fólk verður þunglynt? Ef ég er ógeðslega þreytt á sunnudagskvöldi eftir 56 tíma vinnuviku (sem gerist bara af og til), þar af 32 helgarvinnu, og líður hrikalega ílla, með alltof hraðan púls og svo úrvinda að manni langar til að æla, þá fer ég bara að sofa, og sef lengi á mánudeginum og sleppi öllu sem ég nenni ekki að gera, t.d. tiltekt, þótt allt fljóti í drasli og skít eftir vikuna því fjölskyldan mín (sérstaklega unglingurnar) hefur aðra sýn á drasli og skít en ég. Síðan fer ég líklega að vinna aftur á þriðjudeginum, miðvikudeginum og fimmtudeginum og er enn þreytt og meika heldur ekki að taka neitt til að ráði þessa daga. Kannski er ekki tekið til fyrr en á föstudeginum, því ég forgangsraðaði vinnunni, fjölskyldunni, félagslífinu, hreyfingu og facebook, langt fram fyrir tiltekt. Svona mest til að vera glöð og hamingjusöm og halda sönsum 🙂
Og þessvegna er það ofar mínum skilningi þegar ungar stelpur, menntaðar, barnlausar, í sambandi og kannski með hund eða einn hest, detta niður í þetta líka þunglyndi vegna álags?!!? Hvaða álags??? Að vinna 32-37 tíma vinnuviku, búa í lítilli íbúð, passa eitt dýr og eiga sætan kærasta… er það álag?
Eða bara þegar venjulegar konur (og menn) eins og ég, standast ekki álagið… og enn spyr ég, hvaða álag? Það er alltaf að gerast e-ð nýtt, og heilinn í okkur er gerður til að læra nýtt, sérstaklega þegar hann er vanin á það. Og ef það er of mikið álag, þá verður fólk bara að forgangsraða… svo sáraeinfalt er það. Í sumum tilfellum þarf fólk bara að vera hart af sér.
Stundum, þegar maður heyrir um enn eitt þunglyndistilfellið, enn eina sálfræðiheimsóknina og enn eitt „niður með stress“ dæmið, dettur mér í hug pabbi, sem fer á traktornum með hvíta heyrúllu á gafflinum framan á traktornum, upp á tún til hestanna á veturnar. Og hestarnir flokkast um heyrúlluna og byrja að éta (pabbi tók plastið af). Ef maður stillti risastórri lukkupillu (á stærð við heyrúllu) út á tún í Kongevejsparken, þá yrði hún étin upp til agna á augabragði, reyndar hraðar en hestarnir ætu sína heyrúllu.
Sumir tala um kröfurnar í þjóðfélaginu… að það séu gerðar alltof miklar kröfur til fólks. Heyrði þetta síðast í dag, ein sagði að fólk væri að kikna undan kröfum þjóðfélagsins. Annað hvort er ég staurblind eða algjörlega tóm í kálhausnum en ég sé ekki þessar kröfur. Sé bara þróun þar sem maður vex með verkefnunum.
En kæra fólk, ekki móðgast aftur. Plííís. Og ég vil taka það fram að ég er ekki að tala um fólk sem hefur orðið fyrir Óeðlilegu álagi (s.s. sjúkdómum, óeðlilegum missi, óeðlilegu atvinnuleysi, fátækt, vonlausum vinnstad og svona mætti lengi telja). Ég er ekki að gera lítið úr þunglyndi eða stressinu. Ég er bara að spá í hvað varð um hörkuna?
(og p.s. Sigfúsi og Aldísi finnst Útsvar ekkert hallærislegt, þau voru bara að djóka í mér)