Jehovarnir Vol 2
Hverjir haldiði að hafi bankað upp á í gær? Aftur? Ég sagði Fúsa að fara til dyra, að þetta væru hans gestir. Fúsi opnaði, kurteisin uppmáluð (þið vitið hvernig hann getur verið) og umræðurnar byrjuðu. Ég heyrði að þetta var sami karlinn og síðast. Og hann spurði eftir MÉR…! Okay, ég drattaðist með fílusvip, í hlaupabuxunum með vetrarleggi og sagði hæ. Hann vildi heilsa mér með handabandi og um leið horfði hann djúpt í augun á mér eins og ég væri einstök. Síðan kynnti hann mig fyrir samferðarmanninum Vá! Mér varð litið fyrir aftan hann (þessháttar fólk er aldrei eitt á ferð), heilsaði og hvað sá ég? Nei, ekki sama hallæris og þögla gaurinn og síðast, heldur þennan svaka gæja á mínum aldri, í flottum fötum, með geggjað hár og eitt það fallegasta bros sem ég hafði séð í þessari viku. Mér varð frekar hverft við, þar sem ég hef aldrei á ævinni séð myndarlegan votta og bjóst allsekki við því.Er að segja ykkur… þetta var sjálfastur Jude Law (eða mjög líkur honum).
„Elsti“ maðurinn byrjaði á að biðjast afsökunar á síðastu uppákomu og sagðist hafa haft samviskubit því við skildum í svo mikilli reiði. Að það væri ekki meiningin að eyðileggja daginn fyrir fólki og að þeir væru bara að boða trúna sína og bjarga fólki. Ég sagði okey, afsökunarbeiðnin væri móttekin og samþykkt og sorry tilbaka, en bað hann um að einbeita sér að sínu eigin fólki og að vera góður við það. Kannski bara leysa það allt úr álögum? Hann brosti og sæti vottinn fyrir aftan brosti. Hann sagði að þetta væri ekkert fangelsi og að fólkinu sínu liði vel og að samstaðan væri gífurleg. Hver einasti einstaklingur væri einstakur og væri meðhöndlaður á einstakan hátt.
Mér fannst þetta heldur óljóst og fannst geta verið margvísleg meining í þessu. Spurði hvort sá feiti fengi þá ekkert að borða og sá ofvirki væri bundin? Hann sagði nei nei, að það væri pláss fyrir alla og að ALLIR væru meðhöndlaðir eins af sjálfum Jehova… Ég skildi ekki baun og spurði þá hvort allir væru meðhöndlaðir eins og prinsar og prinsessur? Já EINMITT, svaraði hann… allir eru prinsar og prinsessur!
Hmmm prinsessa… einstök prinsessa, það hljómaði nú ekki svo galið. Það er það sem fólk eins og ég, dreymir um.
Ég spurði hvernig þeir fengu tímann til að líða, fyrir utan þessa fundi þeirra og hvort fundirnir væru ekki svakalega lengi að líða? Hann sagði nei, fundirnir væru ekki langir og væru hin mesta skemmtun (glætan spætan). Síðan sagði hann að það væru haldnir fleiri minni fundur, aldurskiptir og misfjörugir, og benti á heita gaurinn fyrir aftan sig og sagði að hann væri t.d. í formaður skemmtinefndar fyrir 25 – 50 ára. Heiti gaurinn blikkaði mig.
Ég sagði að það breytti engu um skoðanir mínar á þeirra túlkun bíblíunnar og að það væri bara tímasóun fyrir þá að vera bankandi hérna í tíma og ótíma. Þá sagði heiti gaurinn: „það er aldrei tímasóun að banka hjá einstakri prinsessu eins og þér…!“
Juuu hann var svo líkur Jude Law… sérstaklega augun þegar hann brosti. (Eins og allir vita er Jude Law fallegastur í heimi (fyrir utan Fúsa minn).
Ég sagði: „já nei nei, það þýðir ekkert að smjaðra hérna í minni forstofu og nú þarf ég að fara út að hlaupa“ (svona bull bítur sko ekkert á mig)
Heiti gaurinn (sem getur alveg eins kallast Jude Law): „hleypurðu?“
Ég: „já“
Jude Law: „ertu kannski að fara í motorvejshlaupið?“
Ég: „já“
Jude Law: „ég líka 🙂 “
Ég: „what???“
Jude Law: „já :)“
Dettir mér allar dauðar og lifandi lýs úr höfði og mæti ég einhyrning niðrá höfn… Votti að hlaupa…!!! Því hefði ég aldrei trúað!
Jude Law: „hvaða lengd tekurðu?“
Ég: „10“
Jude Law: „Ég líka“
Ég: „Óli píka“ (nei sagði það ekkert… sagði bara „okay“ og brosti smá)
Jude Law: „þá sjáumst við þar :)“
Ég: (búin að missa kontrollinn) „já kannski“ og aftur pínu bros… deeeem!
En allavega þá fóru þeir áður en allt fór í bál og brand og Jude Law blikkaði mig og myndaði „Motorvejslöbet“ með vörunum.
Andskotans vottar!
Vá ég er alveg að spá í að skrá mig í Motorvejhlaupið BARA til að geta hlaupið við hliðina á þér og Jude…..
Eins gott að ég hleyp bara 5 km 😉