prinsessan sem vill hærri laun
Í júní komu auglýsingar og fréttir um prinsessuskóla á höfuðborgarsvæði Íslands. Mér skildist á auglýsingunum að þetta væru námskeið fyrir litlar og stórar stelpur þar sem einblítt yrði m.a. á að kenna þeim að borða hollt, halda húðinni fallegri, tala fallega og ganga fallega. Eldri hópnum átti að kenna það sama, ásamt því að fá leiðbeiningu í förðun og klæðaburði. Allt þetta til að öðlast sjálfsöryggi og sjálfstraust.
„Ja hérna“ sagði fólk.
Feministar réðust á auglýsingarnar og héldu því fram að það yrði að varast klámvæðingu ásamt valda -og ójafnvægi kynjana. Vildu líka meina að þetta tengdist útlitsdýrkun.
Ég get ekki séð hvernig hægt sé að bendla þetta við klámiðnaðinn né kynjamismunum. Ég fæ ekkert samhengi með fallegri hegðun og launum. Og allra síst með hollu mataræði og klámi.
Markmið námskeiðsins hlýtur að vera að fyrirbyggja ropandi og hoknar skinkur með björgunarhringinn beran á milli bols og buxna. Það úir og grúir nefnilega af þesskonar stúlkum útum allan heim. Og einhversstaðar hefur fræðslan og fyrirmyndin brugðist. Þessvegna þarf að smala þessum stúlkukindum í prinsessuskóla og kenna þeim að vera stúlkur og seinna konur og að berast áfram á kvenleikanum og þokkanum. Því það er það sem við erum -KONUR! Við berjumst ekki fyrir jafnrétti með ropi og brúnkukremi í flíspeysu.
Ég fer að nálgast fullorðinsaldurinn og er enn að leita að sjálfri mér. Ég er enn örlitlum í vafa um hvort ég sé strákastelpa eða stelpustelpa. Þó er ég farin að hallast meira og meira að stelpustelpunni. Hef ekki verið með sorgarrendur undir nöglunum í mörg ár, og alveg steinhætt að stinga hausnum uppundir húddið á bílnum og þykjast hafa örlítið vit á þessari græju þar. Minn uppáhalds fatnaður eru kjólar. Og hafa verið í nokkur ár. Hreinlega elska kjóla. Og háhælaða skó. Og finnst ekkert aðþví að vera svoldið aum í fótunum, ef ég get aukið á kvenleikann með hælum.
Stelpuvinnan mín er verr borguð en sambærileg strákavinna, en það hefur ekkert með kjólana að gera og allra síst hælana. Ef ég væri jafnréttisbaráttumanneskja (er alltof löt til þess að vera það) gæti ég alveg eins barist með kjafti og klóm, rökuð undir höndunum, borðandi gulrót og í kjól, eins og að vera í strigaskóm og flíspeysu.
Í júní 2011 vorum við 12 konur sem héldum fund. Fundurinn gekk útá að ná heimsyfirvöldum. Við klæddum okkur í okkar fínasta púss (kjóla og pils) og borðuðum fallegar litríkar kökur. Ætlunarverkið mistókst þar sem bara örlítið brot af okkur er á lífi í dag. En mikið ósköp leið okkur vel í kjólunum okkar. Við vorum dömur fram í fingurgóma.
Á laugardaginn síðasta hurfum við aftur til 18. aldar. Tókum makana okkar með okkur og dubbuðum okkur upp. Þvílík sæla að hverfa svona aftur í fortíðina, þar sem bílhurðin er opnuð fyrir mig, stóllinn dregin út og passað uppá að ég flækist ekki í kjólnum. Eftir að við höfðum skemmt okkur konunglega í höllinni og dansað Lancier, héldum við útí nóttina til að sýna okkur og sjá aðra. Og mikið ósköp leið okkur vel allan tímann í okkar fínasta pússi og mikið óskaplega skemmtum við okkur vel.
Þessvegna er ég baráttumanneskja fyrir kjólum og herramennsku. Og finnst prinsessuskóli alveg eiga rétt á sér, á meðan hann er ekki algjörlega á amerísku nótunum, því við erum allar prinsessur/drottningar og eigum að meðhöndlast sem slíkar (t.d. með hærri launum þar sem við á).