19. september 2011
Dagur 13 í Esbjerg
Til hamingju Honda og ég! Í gærkveldi keyrðum við hingað upp eftir í blíðskaparveðri í fyrsta skipti. Hin skiptin hefur ringt eldi og brennisteini, ásamt innrás Katia síðasta mánudag. Honda og ég ákváðum að halda upp á veðrið og endurnýjun kúplingunnar. Við vorum báðar í skýjunum og slógum okkar eigið hraðamet til Esbjerg.
Deildin í Esbjerg er fín. Reyndar bara rosalega fín. Hjúkkurnar (94 talsins) eru klárar, skemmtilegar og hárprúðar, læknarnir eru svæfingarlæknum líkir, snargeggjaðir í skapinu en þó svo stutt í brosið. Sendlarnir slá sönderborgarsendlunum algjörlega við í fagmennsku og daðri. Hér við Vesturhafið halda engin bönd. Það eru bara eilífar vindkviður í kollinum á fólkinu hérna. Þetta passar mér fínt. Skapóðir læknar og stjórnlausir sendlar. Enda er mér löngu farið að líða eins og heima hjá mér. Er líka einstaklega góð að aðlagast. Held það sé sá hæfileiki sem stendur öðrum hæfileikum framar. Allavega betri að aðlagast en að spila á píanó. Hvernig ætti líka annað að vera? Esbjerg er vinnustaður/skóli/verknámsstaður nr 23 síðan ég flutti hafurtask mitt og fjölskyldu til DK. Og þó taldi ég bara gróflega og taldi þó ekki allar deildirnar á Augustenborg – Haderslev -Aabenraa og -Sönderborg sjúkrahúsi með, þar sem ég hef bara rétt droppað inn, tekið vaktir og ekki verið hluti af fællesskapinu. Samt er ég stabíl manneskja. Ein sú stabílasta sem ég þekki. Hleyp ekki og hef aldrei reykt hass. Hef alltaf tollað vel í vinnu og bara einu sinni verið rekin. Svík ekki undan skatti og hef alltaf borgað mínar hraðasektir þegjandi og hljóðalaust (enda alltaf fengið 50% afslátt).
Já dagurinn í dag var fínn í Esbjerg, það blés, svo helliringdi, svo skein sólin, svo mígríngdi aftur, síðan skein sólin, síðan fauk drasl og trén svignuðu og síðan skein sólin aftur. Svona er þetta alltaf í Esbjerg. Í síðustu viku fór ég í göngutúr meðfram Vesturhafinu og það var eins og stinga hausnum útum bílrúðuna á hraðbrautinni.
Sjúklingurinn minn í dag var í góðum gír, nóg að gera og vinnufélagan spræk. Sendillinn í dag bauð mér prufutíma í 4 mánuði. Hann sagði að margar tækju tilboðinu. Innifalið er huggulegt sumarhús á Fanö.
Eftir vinnu var ég mikið að spá í að fá mér frískt loft í rándýra hlaupagallanum mínum (dettur samt ekki í hug að hlaupa í honum, það væri svipað og að versla eingöngu í Veromoda, allir eins). En ég er eiginlega hætt við að fara út því það eru að koma ljósaskifti og ég þori ekki út í Esbjerg nema í hábjörtu, því skipaumferðin hérna er gríðarleg og það hlýtur allt að fljóta í dópi ásamt gríðarlegu rokkarastríði.
Ætla því bara að vera upp í svefnsófa með snakkpoka, kók og njóta Adele, L Cohen, Edit Piaff, Red hot chili peppers , The Rumour said fire, R.E.M.,Ray LaMontagne og fullt af fleirum. Er alveg sannfærð um að ég er með besta tónlistarsmekk í heiminum (enn einn hæfileikinn).